Viðskipti innlent

Kallaðir "Ewingar” þegar olíuborinn kom í Flatey

Kristján Már Unnarsson skrifar
Aldarþriðjungur er frá því fyrst var borað eftir olíu á Íslandi en það var í Flatey á Skjálfanda. Þá var Dallas vinsælasta sjónvarpsefnið og Flateyingar fengu auðvitað viðurnefnið „Ewingarnir". Í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan, voru sýndar myndir af holunni og rætt við Stefán Guðmundsson á Húsavík, afkomanda Flateyinga, en fjölskylda hans á hús í eynni. 

Leyfi sem olíufélagið Shell fékk árið 1971 til rannsókna á hafsbotninum má telja upphaf olíuleitar við Ísland en fyrsta borunin var hins vegar á vegum íslenskra stjórnvalda, rétt við vitann á hæsta hluta Flateyjar, en setlög Skjálfandaflóa þóttu þá vænleg.

Frá Flatey á Skjálfanda. Enn má sjá holuna við vitann.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Það var Hjörleifur Guttormsson, þáverandi iðnaðarráðherra, sem fól Orkustofnun árið 1982 að bora í Flatey en tveimur árum áður hafði Hjörleifur skipað ráðgjafanefnd til að undirbúa olíuleit við Ísland. Nánar má fræðast um málið í þessu þingskjali. 

„Eyjarskeggjar voru náttúrlega mátulega ánægðir með þessa fyrirætlun og sáu það ekki fyrir sér að þessi paradís gæti orðið borpallur fyrir olíu. En þessu var nú ekki haldið til streitu mjög lengi. Menn fóru hérna niður á 534 metra, held ég. Þá brotnaði krónan og þá hættu menn,“ segir Stefán. 

Til að ganga úr skugga um tilvist olíu eða gass í setlögunum var talið að bora þyrfti niður fyrir tvöþúsund metra dýpi, að því er fram kom í þingræðu Hjörleifs. En er hugsanlegt, ef borað yrði dýpra, að þá kæmi olíugos upp? 

„Já, það er alveg hugsanlegt. En við viljum það ekki. Það er hægt að finna hana annarsstaðar.“ 

Þótt ekkert yrði af frekari borun gátu Þingeyingar þó gert grín að öllu saman. 

„Jú, það vildi svo skemmtilega til að Dallas var sýnt í sjónvarpi landsmanna á þessum tíma. Þá voru gárungarnir með það, kölluðu Flateyinga gjarnan Ewingana á þessum tíma. Það þótti góður húmor.“

Séð yfir Flatey á Skjálfanda úr vitanum.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Borað við vitann í Flatey árið 1982.Mynd/Orkustofnun.

Tengdar fréttir

Olíudraumurinn úti á Skjálfanda

Draumurinn um olíulindir á Skjálfandaflóa er úti. Engin merki fundust um olíu né jarðgas í borkjarnasýnum sem tekin voru í haust, aðeins metangas.

Jörð með fyrirheit um olíu til sölu í Öxarfirði

"Ég hef aldrei áður haft til sölu jörð þar sem eru fyrirheit um olíuvinnslu,“ segir Magnús Leopoldsson hjá Fasteignamiðstöðinni sem nú er með til sölu helmingshlut í jörðinni Skógum III í Öxarfirði. Hugsanlegt er sagt að olía finnist þar í jörðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×