Viðskipti innlent

Fasteignaverð hækkar enn

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Fasteignaverð hækkar.
Fasteignaverð hækkar. Vísir/Anton Brink
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,7 prósent milli mánaða í mars. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Hækkun fjölbýlis er eilítið minni en verið hefur síðustu mánuði, en  hækkunin á sérbýli er meiri en verið hefur frá því í maí í fyrra en fjölbýli hækkaði um 0,3 prósent en sérbýli um heil 2,1 prósent. Síðustu 12 mánuði hefur fasteignaverð hækkað í heild um 1,4 prósent, fjölbýli um 8,7 prósent og sérbýli um 3,6 prósent.

Viðskipti á íbúðum hefur færst í aukana milli ára en þau voru 1800 á fyrstu þremur mánuðum þessa árs miðað við 1500 í fyrra. Séu viðskiptin fyrstu þrjá mánuðina í ár borin saman við sama tíma 2015 kemur í ljós að þau eru töluvert meiri í ár, um 1.800 nú á móti um 1.500 í fyrra.

„Tölur Hagstofunnar um íbúðafjárfestingu og tölur um hlutfall nýrra íbúða af seldum íbúðum styðja þá skoðun okkar að töluvert vanti upp á að framboð íbúða á höfuðborgarsvæðinu anni eftirspurn og að umframeftirspurnin ýti undir hækkun fasteignaverðs.Um þessar mundir hefur verið að koma inn á markaðinn talsverður fjöldi eigna á Seltjarnarnesi og í Reykjavík. Sala nýrra íbúða skapar ætíð töluverða aukningu á viðskiptum og svo mun væntanlega verða nú,“ segir í Hagsjánni.

„Kaupmáttur launa hefur aukist verulega á síðustu misserum og almenn bjartsýni ríkir í þjóðfélaginu. Fasteignaverð hækkar jafnan fyrst og fremst vegna hefðbundinna áhrifaþátta eins og þróun kaupmáttar, tekna, vaxtastigs af húsnæðislánum og atvinnustigs. Þróun allra þessara þátta stefnir nú í þá átt að ýta undir hækkun fasteignaverðs. Þessu til viðbótar er sú staða nú uppi að framboð íbúða annar ekki eftirspurn og greinileg þörf virðist vera á fleiri nýjum íbúðum inn á markaðinn til þess að anna aukinni eftirspurn. Flestir undirliggjandi þættir vísa því í áframhaldandi hækkun fasteignaverðs. Hagfræðideild spáði í nóvember 8 prósent árlegri hækkun fasteignaverðs á árunum 2016-2018.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×