Chevrolet hefur birt framístöðutölur fyrir nýjan rafmagnsbíl sinn sem heitir Bolt og þar kemur meðal annars fram að bíllinn hefur 383 km drægni. Með því skákar hann tilvonandi Tesla Model 3 bíl sem komnar eru 400.000 pantanir í. Chevrolet Bolt kemur fyrr á markað en Tesla Model 3, eða seinna á þessu ári, en Tesla bíllinn á næsta ári.
Tesla Model 3 bíllinn hefur þó vinninginn er kemur að verði en hann á að kosta 35.000 dollara, en Chevrolet Bolt bíllinn rétt undir 37.500 dollurum. Engu að síður má búast við því að góð sala verði í Bolt bílnum þar sem hann kemur fyrr á markað en Tesla Model 3 og ekki er um að ræða eins langan biðlista eftir honum.
Chevrolet Bolt hefur næstum þrisvar sinnum meiri drægni en sá rafmagnsbíll sem Chevrolet hefur undanfarið haft í sölu, þ.e. Chevrolet Spark EV en hann er með 132 km drægni. Í Chevrolet Spark EV er 19 kWh rafhlaða en í nýjum Bolt er 60 kWh rafhlaða. Chevrolet framleiðir að auki tvo aðra bíla sem að hluta til ganga fyrir rafmagni, í formi Chevrolet Volt og Malibu Hybrid.
Chevrolet Bolt með 383 km drægni
