Í málinu var meðal annars ákært fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun en BK notaði lánið frá Glitni til að fjármagna kaup á hlutabréfum í bankanum en Glitnir sjálfur var eigandi þeirra bréfa. Tap bankans vegna viðskiptanna nam tveimur milljörðum króna.
Margra ára fangelsisdómar
Birkir, sem var yfirmaður einkabankaþjónustu Glitnis, var dæmdur í fimm ára fangelsi i héraði líkt og þeir Elmar Svavarsson, sem var verðbréfamiðlari, og Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta bankans. Þá hlaut Magnús Arnar Arngrímsson, sem gegndi stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs, fjögurra ára fangelsisdóm.
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, flutti málið fyrir hönd ákæruvaldsins í morgun. Í upphafi ræðu sinnar sagðist hann fara fram á staðfestingu á dómi héraðsdóms en undir lokin vísaði hann í fordæmisgildi dóm Hæstaréttar í Ímon-málinu þegar hann ræddi ákvörðun refsingar í málinu.
„Í Ímon-málinu var það bankastjórinn sem veitti 5 milljarða króna lán en þar var ekki sambærilegur skaðleysissamningur til staðar eins og hér [innsk. blaðamanns: BK átti hvorki að verða fyrir tjóni vegna lánsins né hlutabréfaviðskiptanna]. Í Ímon-málinu voru hins vegar þrjú sambærileg tilvik um markaðsmisnotkun og er undir hér. [...] Í ljósi þessa getur ákæruvaldið ekki mótmælt því að dómurinn [í BK-málinu] sé dálítið þungur, miðað við Ímon-dóminn allavega.“

Að mati ákæruvaldsins voru viðskipti BK-44 og Glitnis með hlutabréfin í bankanum ekki gerð á viðskiptalegum forsendum. Staðreyndin hafi verið sú að bankinn hafi átt of mikið af eigin bréfum og þurfti að losa sig við þau.
Sagði Helgi Magnús að fyrsta hugsun Birkis Kristinssonar hafi ekki verið að kaupa bréfin sjálfur. Hann hafi leitað að kaupendum á meðal viðskiptamanna sinna en ekki haft erindi sem erfiði. Félag hans hafi þar af leiðandi keypt bréfin.
„Hann var að gera bankanum greiða og það er því augljóst að ekki voru viðskiptalegar forsendur fyrir þessari sölu. [...] Þá fluttist markaðsáhættan aldrei til BK-44 en það var grundvöllur fyrir sakfellingu í Ímon-málinu, að það var engin markaðsáhætta hjá félaginu.“
Einn tölvupóstur eina skjalið sem fannst um lánið
Þá fór saksóknarinn yfir það að lánveitingin hafi aldrei farið fyrir lánanefnd eða áhættunefnd Glitnis. Að auki hafi ekki verið fullnægjandi tryggingar fyrir láninu og engir lánapappírar voru undirritaðir.
Einnig kom fram að eina plaggið sem fundist hefur í bankanum vegna viðskiptanna sé tölvupóstur frá Magnúsi Arnari til Jóhannesar þar sem hann segist vera kominn með samþykki fyrir fjögurra milljarða króna peningamarkaðsláni til BK-44.
„Hann hefur hins vegar ekki getað gefað neinar skýringar á þessu samþykki og vísar í yfirmenn sína en þeir hafa allir neitað að hafa komið að málinu,“ sagði Helgi Magnús.