Helsta skýringin á aukinni sölu er að virðisaukaskattur af bílunum var felldur niður 1. janúar 2014 að sögn Özurar Lárussonar, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins. Þá séu engin vörugjöld greidd af rafmagnsbílum þar sem þeir losi ekki koltvísýring. Því sé nú hægt að kaupa nýjan rafmagnsbíl hér á landi á þrjár til fjórar milljónir króna.

Reikna megi með að hægt sé að komast á 80-120 kílómetra á einni hleðslu. Þeir séu því kjörnir fyrir hefðbundinn innanbæjarakstur, úr og í vinnu. „En ef þú ætlar að fara í lengri ferðalög hentar þetta engan veginn,“ bendir Özur á.
Hins vegar liggi fyrir að drægi rafmagnsbílanna muni batna og þeir muni lækka í verði á næstu árum. En til þess að rafmagnsbílar verði raunhæfur valkostur á ferðum um landið þurfi að koma upp hraðhleðslustöðvum hringinn í kringum Ísland.