Viðskipti innlent

Gera ráð fyrir 50 punkta hækkun vaxta

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Greiningaraðilar gera ráð fyrir skarpri hækkun vaxta á næstunni.
Greiningaraðilar gera ráð fyrir skarpri hækkun vaxta á næstunni. vísir/vilhelm
Greiningardeildir allra stóru viðskiptabankanna þriggja búast við því að Seðlabankinn hækki vexti um 50 punkta á stýrivaxtafundi þann 19. ágúst.

Greiningardeild Arion banka býst við því að Seðlabankinn hækki vexti um 125 punkta samtals það sem eftir lifir árs, að vaxtahækkuninni í ágúst meðtalinni.

„Fram undan eru þrír aðrir vaxtaákvörðunardagar á árinu og mesta óvissan er um hversu hratt Seðlabankinn mun hækka vexti. Við teljum þó að hann muni stíga frekar varlega til jarðar og muni ekki hækka vexti um meira en 50 punkta í einu á þeim vaxtaákvörðunarfundum sem eftir eru á árinu,“ segir greiningardeild Arion banka.

Greining Íslandsbanka segir að peningastefnunefnd muni rökstyðja hækkunina í næstu viku með verri verðbólguhorfum, miklum innlendum launahækkunum og vaxandi spennu í efnahagslífinu.

Íslandsbankamenn eru varfærnari en greiningardeild Arion banka og spá því að nefndin muni hækka stýrivexti bankans um 1,0 prósentustig til viðbótar á þessu ári að meðtalinni 0,5 prósentustiga hækkuninni núna í ágúst.

Hagfræðideild Landsbankans telur ekki útilokað að vextir verði hækkaðir um meira en 0,5 prósentustig í næstu viku. Aftur á móti séu þrír fundir eftir af árinu og því töluvert svigrúm enn til að auka aðhald.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×