Viðskipti innlent

Íslendingar hjálpist að í markaðssetningu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Að fara í reiðtúr er vinsæl afþreying á meðal ferðamanna.
Að fara í reiðtúr er vinsæl afþreying á meðal ferðamanna.
„Það þarf heppni til þess að ná að byggja upp tengsl erlendis,“ segir Guðmundur R. Einarsson hjá Bókun. Hann mun halda framsögu fyrir hönd fyrirtækisins síns á ráðstefnunni Startup Færeyjar sem fram fer um helgina.

Bókun er fyrirtæki sem framleiðir hugbúnað sem gerir aðilum í ferðaþjónustu kleift að tengjast og vinna saman á einfaldan hátt. Til dæmis geta þeir selt vörur hver annars, haldið utan um útistandandi kröfur sín á milli, sameinað eigin vörur við vörur annarra og selt sem þriðju vöruna, allt í rauntíma. Fyrirtækið var valið startup ársins í Íslandshluta Nordic Startup Awards á dögunum. Guðmundur segir að Færeyingar líti til Íslendinga þegar kemur að atvinnusköpun.

„Ég er að fara að tala um hvernig er að vera Íslendingur að stofna fyrirtæki í minna umhverfi en þekkist erlendis, hvernig er hægt að byggja upp og mynda sambönd,“ segir Guðmundur í samtali við Markaðinn.

Guðmundur segir að í litlum samfélögum verði menn að hjálpast að við markaðssetningu. Það nægi ekki að hver og einn horfi á sjálfan sig. „Þegar kúnninn kemur til Íslands geti hann keypt fleira heldur en bara það sem fæst á áfangastaðnum sem hann fer á,“ segir Guðmundur og bendir á að Hestaleigan Laxnesi sé til dæmis farin að selja fjórhjólaferðir.

„Við verðum að deila kúnnanum. Kúnninn er ekki bara að koma til Íslands til þess að fara í Bláa lónið. Hann kemur hingað og vill vera hérna í einhvern tíma,“ segir Guðmundur. Þess vegna sé Bókun mikið að horfa á samfélagið í heildina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×