Viðskipti innlent

Markaðir að opnast fyrir lýsi í Indlandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Um 1,2 milljarðar manna búa í Indlandi. Þar er mikil fátækt en um 400 milljónir manna eru í millistétt eða efri stéttum.
Um 1,2 milljarðar manna búa í Indlandi. Þar er mikil fátækt en um 400 milljónir manna eru í millistétt eða efri stéttum. Nordicphotos/getty
Áhugi Vesturlanda á viðskiptum við Indland er tekinn að aukast, segir Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Nýju-Delí. Hann er á meðal framsögumanna á fundi Íslensk-indverska viðskiptaráðsins, Félags atvinnurekenda og utanríkisráðuneytisins um tækifæri í viðskiptum Íslands og Indlands á morgun.

Þórir bendir á að meiri hagvexti sé spáð í Indlandi en í Kína á næstunni. Gert sé ráð fyrir hagvexti undir sjö prósentum á árunum 2015 til 2016 í Kína en á næstu árum sé spáð 7,5 til 8 prósentum í Indlandi.

Þórir bendir á að forsætisráðherra Indlands, Narenda Modi, hafi lagt gríðarlega mikla áherslu á að auka erlenda fjárfestingu í landinu. „Hann hefur farið vítt og breitt, til Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu, til Kína, Japans og til Evrópu til að skapa nýja ímynd af Indlandi,“ segir hann.

Þórir Ibsen sendiherra
Þórir segir að indversk stjórnvöld leggi nú mikla áherslu á að laða að fjárfestingu og vilji byggja upp iðnað í landinu. Nútímavæða borgir og gera þær hátæknivæddar. Endurbyggja orkukerfið hjá sér og auka nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Þórir bendir á að mannfjöldinn í Indlandi sé 1,2 milljarðar. Þótt þar sé mikil fátækt sé líka mikil velmegun hjá hluta þeirra. Til millistétta og efri stétta teljist 400 milljónir manna

„Fyrir okkur er athyglisvert að skoða nánar þá atvinnuvegi sem þeir eru að leggja áherslu á,“ segir Þórir. Hann ítrekar að lögð sé áhersla á endurnýjanlega orku. Hún verði aukin um 160 þúsund megavött fyrir árið 2022. „Þeir leggja mesta áherslu á sólarorku, vatnsorku og jarðvarma. Þar er biti fyrir okkur til að sækja fram,“ segir Þórir.

Þá sé lögð áhersla á að nútímavæða borgir og styrkja innviði. Þar séu tækifæri fyrir arkitekta, verkfræðistofur og fleiri aðila í byggingaframkvæmdum. Þá sé stafræni markaðurinn að eflast, meðal annars leikjamarkaðurinn. Einnig sé mikil eftirspurn eftir gervilimum og hjálpartækjum. Þá sé fólki að fjölga sem kýs hreinar afurðir. Markaðir séu að opnast fyrir ómega-3 vörur og lýsi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×