Viðskipti innlent

Bjó í Ástralíu og fór á vetrarútsölur í júlí

jón hákon halldórsson skrifar
Davíð Ólafur Ingimarsson
Davíð Ólafur Ingimarsson
Davíð Ólafur Ingimarsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri hjá GreenQloud. Davíð er með B.Sc. og meistaragráðu í hagfræði og einnig meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja. Að auki er hann löggiltur verðbréfamiðlari. Hann lærði hér heima en fékk rannsóknarstyrk og fór til Japans og Ástralíu.

„Það var mjög skrítið að búa í Ástralíu,“ segir Davíð Ólafur. Það hafi allir verið sofandi þegar hann sjálfur var vakandi. „Sérstaklega fannst mér skrítið yfir sumartímann þegar það voru vetrarútsölur í öllum búðum. Í júlí á ekki að vera vetrarútsala. Það er eitthvað rangt við það,“ bætir Davíð við í léttum dúr.

GreenQloud er nokkurra ára gamalt íslenskt fyrirtæki. Það er fyrst og fremst hugbúnaðarfyrirtæki og hefur lagt sífellt meiri áherslu á búnað sem heitir Qstat. Það er heildarskýjalausn til að stýra skýjaumhverfum fyrirtækja og sameina kosti sýndarumhverfa, hefðbundinna netþjóna og sjálfvirkni tölvuskýja. Fyrirtækið er því hugbúnaðarfyrirtæki en ekki skýjaþjónusta. „Þetta hefur bara gengið nokkuð vel undanfarið,“ segir Davíð Ólafur og bætir því við að fyrirtækið hafi gert samninga við erlenda og innlenda endursöluaðila. Fjörutíu manns vinna hjá fyrirtækinu, sem er með skrifstofur í Reykjavík og Seattle og fer ört stækkandi.

Umhverfið sem Davíð Ólafur kemur úr er töluvert frábrugðið tölvugeiranum. Hann vann hjá Landsvirkjun í átta ár og segist kveðja það fyrirtæki með söknuði.

Davíð Ólafur bendir á að allt gerist hraðar í tölvugeiranum en í orkugeiranum. „Verkefni mín eru kannski svipuð að því leytinu til að fjármál eru kannski ekkert að breytast. Hjá Landsvirkjun var ég í erlendri og innlendri fjármögnun, sjóðastýringu og hjá GreenQloud verð ég í fjármögnun. Að passa upp á peningana og sjóðina,“ segir Davíð. Hann bætir því við að það sé því aðallega umhverfið sem breytist en ekki verkefnin. „Nema það er kannski meiri ábyrgð að vera fjármálastjóri.“

Helstu áhugamál Davíðs eru líkamsrækt og útivist og svo kennir hann í Háskóla Íslands. „Kennsla er eitthvað sem ég hef mikinn áhuga á,“ segir Davíð ,en bætir við að maður fari ekki í kennslu í HÍ fyrir peninga. „Ég stofnaði fyrirtæki með vini mínum, Bjarna Ingimar Júlíussyni, og við erum að þróa rafrænar kennslubækur á spjaldtölvur,“ segir Davíð. Upphaflega átti fyrsta útgáfan að koma út í sumar en Davíð segir það allt eins geta breyst vegna nýju vinnunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×