Viðskipti innlent

Þrjár nýjar verslanir Bónuss á þessu ári

jón hákon halldórsson skrifar
Hagar reka 29 Bónusverslanir. Þar af eru 19 á höfuðborgarsvæðinu.
Hagar reka 29 Bónusverslanir. Þar af eru 19 á höfuðborgarsvæðinu.
Hagar, sem reka meðal annars matvöruverslanirnar Bónus og Hagkaup, festu kaup á fasteigninni Túngötu 1 í Reykjanesbæ fyrr í júní. Þar verður opnuð Bónusverslun á næstu mánuðum.

Áður hafði verið tilkynnt að aðrar tvær Bónusverslanir yrðu opnaðar á haustmánuðum, í Skipholti og Vestmannaeyjum. Í dag eru verslanirnar 29 talsins, þar af nítján í höfuðborginni.

Þá kom einnig fram við kynningu á síðasta ársreikningi Haga að félagið hefur keypt húsnæðið við Stekkjarbakka 4-6 í Reykjavík. Áform eru um að opna Bónusverslun á þeim hluta lóðarinnar sem stendur við hlið Garðheima og ÁTVR. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvenær verslunin verður opnuð.

Hagnaður Haga á þriggja mánaða tímabili nam 811 milljónum króna. Uppgjörið nær frá 1. mars til 31. maí. Vörusala tímabilsins nam 18,7 milljörðum króna og var framlegð 24 prósent. Í árshlutauppgjörinu kemur fram að hagnaður fyrsta ársfjórðungs er 13,6 prósentum lægri en á síðasta ári. Sá samdráttur er rakinn til kostnaðar vegna verkfalla. Áður hafði verið búist við því að samdrátturinn myndi nema 15 prósentum.

Hagar er skráð í Kauphöll Íslands. Það var fyrsta fyrirtækið sem var skráð eftir bankahrun og þótti skráningin afar vel heppnuð. Gengi bréfa félagsins var rétt rúmar 13,5 krónur á hlut í útboði sem haldið var í aðdraganda skráningarinnar í lok árs 2011.

Á einungis örfáum mánuðum rauk verðið upp yfir 40 krónur á hlut. Síðla í októbermánuði 2014 var verðið á bréfum komið upp í 46 krónur en síðan þá hefur það lækkað. Í gær var gengi bréfanna 36,3 krónur á hlut. Það jafngildir rúmlega 22 prósenta lækkun bréfanna á átta mánaða tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×