Viðskipti innlent

CCP flytur höfuðstöðvarnar í Vatnsmýrina

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Skrifað var undir samning um flutninga CCP í nýbyggingu í Vísindagörðum Háskóla Íslands.
Skrifað var undir samning um flutninga CCP í nýbyggingu í Vísindagörðum Háskóla Íslands. Fréttablaðið/ernir
Samningur um flutning á starfsemi tölvuleikjarisans CCP í nýbyggingu, sem mun rísa á svæði Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni, var undirritaður í Öskju fyrir helgi. Undir samninginn skrifuðu Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, og Hilmar Bragi Janusson, stjórnarformaður Vísindagarða HÍ.

Auk nýrrar aðstöðu CCP verður að finna aðstöðu fyrir fleiri nýsköpunarfyrirtæki í húsinu.

Með nýrri staðsetningu vonast fyrirtækið eftir auknu samstarfi við háskólasamfélagið en CCP var áður til húsa við Grandagarð.

„Ég er sannfærður um að miklir möguleikar eru fólgnir í þeirri samvinnu og uppbyggingaráformum sem fyrirhuguð er í Vísindagörðunum,“ sagði Hilmar Veigar við undirritunina.

„Við fögnum sérstaklega að koma CCP hingað á lóðina skapar grundvöll til að hýsa í sömu byggingu ný sprotafyrirtæki,“ sagði Kristín Ingólfsdóttir.

„Ég er mjög stoltur af því að þetta er að verða að veruleika og tel að það sé til marks um framsýni og metnað forsvarsmanna fyrirtækisins,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, en hann var viðstaddur undirritunina ásamt Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×