Skoðun

Tímamót í íslensku tónlistarlífi?

Jakob Frímann Magnússon og Víkingur Heiðar Ólafsson skrifar
Málefni tónlistarskóla hafa verið nokkuð í umræðunni undanfarið. Sveitarfélög sjá lögum samkvæmt um rekstur tónlistarskóla á grunn-, mið- og framhaldsstigi. Togstreitu hefur þó gætt í fjölda ára milli sveitarfélaga og ríkisins um kostnað vegna nemenda sem stunda nám á framhaldsstigi. Togstreitan hefur komið harkalega niður á þeim skólum sem öðru fremur hafa sinnt lengra komnum nemendum. Nú er svo komið að fjárhagsstaða téðra skóla er orðin svo bágborin að í sumum þeirra ríkir óvissa um hver mánaðamót hvort unnt sé að greiða kennurum laun. Þessi grafalvarlega staða bitnar að sjálfsögðu á öllu starfi skólanna og á nemendum í formi síhækkandi skólagjalda, takmörkunar á námsmöguleikum, skorts á nauðsynlegu viðhaldi o.fl.

Tilraun var gerð til að leysa þessa deilu með tímabundnu samkomulagi ríkis og sveitarfélaga árið 2011 um eflingu tónlistarnáms. Samkomulagið hefur því miður ekki reynst til þess fallið að leysa vandann.

Nýr valkostur

Menntamálaráðuneyti skoðar nú möguleika á því að stofna nýjan tónlistarskóla sem hugsaður væri fyrir nemendur á framhaldsstigi sem hefðu áhuga á að leggja tónlist fyrir sig. Skólinn yrði rekinn af ríkinu og rökin fyrir honum eru allrar athygli verð að mati undirritaðra. Skólinn myndi bjóða upp á hágæðanám í sígildri og nýgildri tónlist með áhugaverðri skörun tónlistargreina og fjölbreyttum möguleikum á skapandi samstarfsverkefnum. Boðið yrði upp á sterkari tengingu við menntaskólanám en nú er fyrir hendi og skólagjöldum yrði stillt í hóf. Aukin þjöppun lengra kominna nemenda myndi leiða til jákvæðra hvata til náms og skólinn gæfi kost á samstarfi við skóla á landsbyggðinni í formi hljóðfærakennslu og fjarnámskennslu. Umfram allt myndi slík stofnun geta hraðað mjög framförum nemenda á því aldursskeiði sem af mörgum er talið mikilvægast á þroskaferli tónlistarmannsins.

Þessi tíðindi gefa undirrituðum tilefni til að ætla að nú standi loks til að blása til sóknar í málefnum tónlistarskólanna. Við fögnum því frumkvæði menntamálaráðherra að koma til móts við lengra komna tónlistarnemendur og leysa deilumál sem staðið hafa allt of lengi. Margt þarf auðvitað að koma til, og ber þar sérstaklega að nefna samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um að áfram verði boðið upp á framhaldsstigsnám í öðrum tónlistarskólum.

Áhugavert verður að fylgjast með þeirri stefnumótunarvinnu sem framundan er, en slíkur skóli gæti markað merk tímamót í íslensku tónlistarlífi og menntun tónlistarnemenda.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×