Viðskipti innlent

Með 11 í forgjöf og hyggst lækka hana

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þorsteinn starfaði hjá Opnum kerfum á árunum 1996-2008, meðal annars sem forstjóri.
Þorsteinn starfaði hjá Opnum kerfum á árunum 1996-2008, meðal annars sem forstjóri. fréttablaðið/gva
Þorsteinn G. Gunnarsson hefur verið ráðinn forstjóri Opinna kerfa frá og með 1. júní. Þorsteinn tekur við starfinu af Gunnari Guðjónssyni, sem gegnt hefur stöðu forstjóra frá árinu 2008.

Þorsteinn er rafmagnsverkfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistarapróf frá Washington-háskóla. Þorsteinn starfaði há Opnum kerfum frá 1996 til 2008 sem framkvæmdastjóri ráðgjafar- og þjónustusviðs og síðast sem forstjóri.

„Félagið er þrjátíu ára í ár og frá upphafi hefur Hewlett Packard verið hornsteinn í rekstri þess. En félagið er líka umboðsaðili fyrir Cisco og fyrir Microsoft og líka fleiri birgja, en þetta eru þeir stærstu,“ segir Þorsteinn um fyrirtækið. Hann segir að fyrirtækið velti fimm milljörðum á ársgrundvelli og sé með um hundrað starfsmenn.

Þorsteinn segir að Opin kerfi séu vel staðsett í þeim breytingum sem eru að verða á upplýsingamarkaðnum í dag, þegar vélbúnaðarsala er að breytast og aukin áhersla er lögð á lausnir og þjónustu. Fólk sé í sífellt meira mæli að nýta sér upplýsingatæknina. Til dæmis með tilkomu snjallsíma, á netinu, á samfélagsmiðlum. „Fyrirtæki á markaðnum þurfa að beisla þessa tækni og nota hana. Þar koma félög eins og Opin kerfi að og tækifærin eru að þroskast með markaðnum,“ segir hann.

Opin kerfi hafa meiri tekjur af fyrirtækjamarkaði en einstaklingsmarkaði. „Við erum mjög stórir í hýsingu og í gagnaversþjónustu í samstarfi við Verne og erum þar með mjög stóra flotta kúnna eins og BMW, sem er risakúnni og eykur við sig á hverju ári,“ segir Þorsteinn og bætir við að einn af stóru vaxtamöguleikunum séu í gagnaversþjónustunni.

Þorsteinn er giftur Herdísi Rafnsdóttur verkfræðingi sem rekur RJ verkfræðinga. Saman eiga þau tvo syni, annan 22 ára og hinn 19 ára. „Helsta áhugamál fjölskyldunnar er golf og er ég mikill áhugamaður um það sjálfur,“ segir Þorsteinn. Hreyfing og útivist er stór þáttur í lífi fjölskyldunnar sem og ferðalög sem tengjast því. Þorsteinn hefur stundað golf í 15-20 ár og uppáhaldsvöllurinn er Grafarholtið og Korpan. „Síðan eru það vellir eins og Urriðavöllur og Leynir á Akranesi,“ segir Þorsteinn. Þorsteinn er með ellefu í forgjöf. „Það er sæmilegt og fer lækkandi vonandi,“ segir hann og hlær.

Fjölskyldan spilar gjarnan golf erlendis og fór meðal annars til Flórída um jólin. „Svo þykir mér gaman að veiða líka,“ segir Þorsteinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×