Skoðun

Kallað eftir skjölum kvenna

Halldóra Kristinsdóttir og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir skrifar
Nú í ár fagna landsmenn 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og er við þessi tímamót rétt að staldra við og velta fyrir sér hvernig saga kvenna hefur varðveist fram á okkar daga. Í skjalasöfnum landsins er það áberandi hve mikið hallar á konur. Á fyrri hluta 20. aldar virðist viðhorf til einkaskjala og handrita kvenna oftar en ekki hafa verið það að þau skiptu litlu máli. Sem dæmi má nefna að árið 1950 færði Menningar- og minningarsjóður kvenna Landsbókasafni Íslands að gjöf ræður og ritgerðarbrot Laufeyjar Valdimarsdóttur. Komu gögnin í leðurtösku merktri með fangamarki Laufeyjar. Gögnin voru á sínum tíma ekki skráð á hefðbundinn máta, heldur voru þau flokkuð sem B-handrit. Þar með takmarkaðist aðgengi að efninu því ekki var hægt að finna þau í útgefnum handritaskrám. Um var að ræða táknræna, formlega gjöf sem átti að stuðla að því að minningu Laufeyjar yrði haldið á lofti, en örlög skjalatöskunnar áttu eftir að verða þau að næstu áratugina lá hún ósnert og illa skráð í geymslum safnsins.

Ekki taldar upp meðal bréfritara

Í handritaskrám Landsbókasafns, sem teknar voru saman á árunum 1918-1996 er þáttur kvenna oft að engu hafður, einkum í fyrstu bindum skránna. Oft eru konur ekki taldar upp meðal bréfritara í bréfasöfnum, jafnvel þó að þar séu tugir bréfa frá konum, heldur var látið nægja að telja upp „helstu bréfritara“, sem oftar en ekki eru karlar sem gegndu embættisstörfum. Þá hafa bréfasöfn og einkaskjalasöfn hjóna oftar en ekki verið kennd við karlmanninn og þess getið að gögn „konu hans“ séu þar með, en konan ekki nefnd á nafn þó að einstaka sinnum sé nafn konunnar sett innan sviga.

Staðreyndin er sú að gögn kvenna skila sér mun síður á skjalasöfn en gögn karla en fátt bendir þó til þess að konur hafi ekki skilið eftir sig skjöl, staðið í bréfaskiptum og haldið dagbækur rétt eins og karlar. Því má spyrja sig hvers vegna þessi gögn skila sér síður inn á söfnin. Eru skjöl kvenna síður þess virði að þau séu varðveitt? Er sagan sem í þeim er fólgin ómerkilegri en sagan sem felst í gögnum karla? Er þetta hlédrægni kvenna um að kenna? Meta konur sín eigin skrif minna en karlar? Líta afkomendur svo á að gögn kvenna séu minna virði en gögn karla?

Skjöl kvenna eru ekkert síður mikilvæg en skjöl karla því oft og tíðum varpa þau nýrri og áhugaverðri sýn á fortíðina. T.a.m. má nefna dagbækur verkakonunnar Elku Björnsdóttur, frá fyrri hluta 20. aldar, sem varpa ljósi á samfélagið í Reykjavík á miklum umbreytingatímum en einnig veita þær innsýn inn í líf kvenna á þessum tíma.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasöfn landsins efna nú til þjóðarátaks um söfnun á skjölum kvenna. Vilja stofnanirnar nýta þetta afmælisár kosningaréttar kvenna til að hvetja landsmenn til að koma skjölum kvenna í öruggt skjól á safni. Gögn sem virðast ef til vill lítils virði geta reynst afar mikilvæg þegar fram líða stundir.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×