Innlent

Selja eignir fyrir þjóðarsjúkrahús

heiða kristín helgadóttir skrifar
Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson. Vísir/GVA
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra vill skoða möguleikann á því að fjármagna hluta af fjárfrekum framkvæmdum við byggingu nýs Landspítala með sölu á eignum ríkisins. Hann telur eignasafn ríkisins vel mega við því að losa eignir og eignast í staðinn nýtt þjóðarsjúkrahús.

„Það kann vel að vera að einstakir áfangar kalli á það að við þurfum að leita sérstakrar fjármögnunar, til dæmis eru þungir áfangar í meðferðarkjarnanum árið 2018-19 upp á 10 milljarða. Annaðhvort verða slíkir áfangar fjármagnaðir með lánsfjármögnun hjá ríkissjóði, eða eins og ég hef talað fyrir þá getum við þurft að leita annarra leiða“ segir Kristján Þór.

Í vikunni heimilaði ráðherra útboð á frumhönnun meðferðarkjarna spítalans og fullnaðarhönnun á sjúkrahóteli við Hringbraut. Með tilkomu sjúkrahótelsins og breytingum á göngudeildarþjónustu í kjölfarið er gert ráð fyrir að stærstur hluti þeirrar 2,8 milljarða króna hagræðingar, sem bygging spítalans á að hafa í för með sér, náist fram.

Sala eigna pólitískt bitbein

Þú hefur talað fyrir sölu eigna ríkisins í þessu tilliti. Hvaða leiðir sérðu fyrir þér?

„Mér finnst með ólíkindum að ríkissjóður, sem á andvirði eigna upp á 1.000 milljarða, geti ekki fært til í eignasafninu sínu einhverja 5, 10, 20 eða 50 milljarða og átt 30 milljarða í þjóðarsjúkrahúsi í stað þess að geyma þá einhvers staðar.“

Hefur þú skoðun á hvaða eignir umfram aðrar ætti að selja og telur að gott verð gæti fengist fyrir?

„Nei, ég hef ekki neina sérstaka skoðun. Ég nefni lóðir, lendur, húseignir, hlutabréf sem ríkið á hér og þar, bankar eru drjúgir og orkufyrirtæki eru drjúg. Allt eru þetta eignir sem eru fastar, allt eru þetta eignir þar sem eru miklar pólitískar skoðanir. En ég tel bara að svigrúmið sem pólitíkin hefur til þess að breyta um form á eigninni og færa úr þessu formi í annað sé verulega vítt í þessu 1.000 milljarða safni. Það á því ekki að þurfa að vera fyrirstaða.“

Kristján telur ekki raunhæft að draga framkvæmdir við Landspítala á langinn. „Það liggur fyrir yfirlýsing stjórnvalda með forystu lækna um að við eigum að fara til þessa verks. Ég held að það sé líka almennur vilji í þjóðfélaginu að við rekum hér heilbrigðisþjónustu sem stenst samanburð. Liður í því að halda þeirri stöðu er að geta búið sjúklingum fyrirmyndar aðstöðu og starfsfólki sömuleiðis, sem er í mínum huga löngu tímabært.“

Er þá kominn tími á nýjan einkavæðingarhóp?

„Alls ekki, það er engin þörf á því. En fjármögnun þessarar enduruppbyggingar hefur verið rædd innan ríkisstjórnarinnar og þetta er bara vinna sem við þurfum að fara í. Sá fyrirvari verður alltaf að vera á öllum verkþáttum að afkoma ríkisins sé með þeim hætti að hún leyfi fjárframlög í verkefnið. Ef það vantar eitthvað upp á þá hef ég hef ég sagt að við eigum fullt færi til þess að yfirfæra eignir.“

Hvað með landsbyggðina

En munu þessar framkvæmdir soga til sín allt fjármagn til heilbrigðisþjónustu?

„Þetta snýst um sérhæfingu. Starfsemi Landspítalans er mjög sérhæfð, um 80 prósent af starfseminni þjóna öllu landinu. Vissulega er þetta mikil framkvæmd sem mun taka langan tíma, verklok eru væntanlega ekki fyrr en árið 2022. Á sama tíma verður að vinna að uppbyggingu og endurbótum í öðrum heilbrigðisstofnunum, hönnun og tækjabúnaði,“ segir Kristján og áréttar að framkvæmdirnar eigi að geta styrkt starfsemi á öðrum sviðum vítt um land.

„Það er meira öryggi fyrir okkur öll að hafa aðgengi að þeirri sérfræðikunnáttu sem er innan stærri sjúkrahúsa. Í stað þess að láta þetta sogast allt á einn blett þá eigum við að reyna að láta kerfið nýta sér kosti þess að geta fært verkefni af Landspítalanum á aðrar heilbrigðisstofnanir þegar því er að skipta og öfugt. Skiptast á þekkingu, tækni og starfsfólki.“

Björn Zoëga aftur til starfa

Hvaða þýðingu hefur yfirlýsing lækna og stjórnvalda í kjölfar kjarasamninga?

„Hún var hluti af því byggja upp traust á milli aðila. Að allir væru sammála um þann vilja að standa vörð um þennan grunnþjónustuþátt sem ég tel mjög mikilvægt að hafi verið gert í tengslum við þessa erfiðu kjaradeilu. Björn Zoëga hefur verið ráðinn til að fylgja eftir þessari yfirlýsingu. Hann er mjög öflugur og gjörþekkir kerfið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×