Skoðun

Reykjavík ekki aldursvæn borg enn

Björgvin Guðmundsson skrifar
Nokkuð vantar á það í dag,að staða og kjör eldri borgara í Reykjavík sé i það góðu lagi,að borgin geti talist aldursvæn borg. Reykjavíkurborg verður því að taka sig á í málefnum eldri borgara, ætli hún að ná þessu takmarki. Borgin þarf að bæta kjör eldri borgara. Borgin þarf að bæta stöðu aldraðra. Verst er ástandið varðandi rými á hjúkrunarheimilum í Reykjavík. Biðlistar eru mjög langir eftir slíku rými. Ástandið í heimahjúkrun er heldur ekki nógu gott. Sú starfsemi er stórlega undirmönnuð

 

Borgin kippir að sér hendinni í félagsmiðstöðvum

Reykjavíkurborg heldur uppi margvíslegri félagsstarfsemi fyrir eldri borgara. Borgin rekur 17 félagsmiðstöðvar víðs vegar um borgina. Það er af hinu góða. En síðustu árin hafa mál þróast þannig í þessum félagsmiðstöðvum, að Reykjavíkurborg hefur kippt að sér hendinni varðandi fjárveitingar til þessarar starfsemi. Borgin hefur fellt niður greiðslur til leiðbeinenda á ýmsum námskeiðum, í danskennslu og í annarri starfsemi. Eldri borgarar hafa sjálfir orðið að borga leiðbeinendum í vissum tilvikum eftir að borgin felldi niður greiðslur. Jafnframt hafa gjaldskrár fyrir þjónustu, sem borgin veitir eldri borgurum, verið hækkaðar, nú síðast um síðustu áramót.

Hrakið frá félagsmiðstöðvum

Gjöld, sem borgin innheimtir af eldri borgurum, eru ekki há. Hækkanir eru ekki miklar. En láglaunafólk meðal eldri borgara finnur mikið fyrir því þegar þessi gjöld hækka. Eru mörg dæmi um það, að eldri borgarar hafa hætt í þessu félagsstarfi vegna hækkana á gjaldskrám. Þegar engir peningar eru til, verða lágar upphæðir fyrir félagsstarf aldraðra háar. Þess verður vart í umræðu um málefni aldraðra, að sumum finnst sem eldri borgarar þurfi engar kjarabætur. Þeir hafi það ágætt. Það rétta er, að hagur eldri borgara er mjög misjafn. Sumir hafa það gott, einkum þeir, sem eiga skuldlaust húsnæði en aðrir eldri borgarar búa við mjög bág kjör og þurfa að greiða háar upphæðir í húsaleigu. Í slíkum tilvikum dugar ellilífeyrir ekki fyrir brýnustu þörfum. Þetta þurfa ráðamenn Reykjavíkurborgar að skilja þegar gjaldskrár eru hækkaðar og borgin hættir að greiða fyrir þjónustu við aldraða.

Gjöld verði lækkuð

Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík tók þessi mál fyrir á fundi sínum í desember sl. Þar var samþykkt að skora á Reykjavíkurborg að lækka verð á þjónustu, sem veitt er eldri borgurum. Borgin hefur leitað eftir því við WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, að verða útnefnd aldursvæn borg. Eigi það að ganga eftir verður að lækka verð á þjónustu til eldri borgara.




Skoðun

Skoðun

Um dánaraðstoð

Steinunn Þórðardóttir,Oddur Steinarsson,Thelma Kristinsdóttir,Katrín Ragna Kemp,Magdalena Ásgeirsdóttir,Margrét Ólafía Tómasdóttir,Ragnar Freyr Ingvarsson,Teitur Ari Theodórsson,Theódór Skúli Sigurðsson skrifar

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×