Innlent

Ofbeldisbrot barna hafa margfaldast frá árinu 2011

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
„Þau eru að berjast fyrir heiðri sínum. Þetta er orðið svo skrítið og afbakað ástand,“ segir Magnús Stefánsson um slagsmál og áhrifamátt netsins.
„Þau eru að berjast fyrir heiðri sínum. Þetta er orðið svo skrítið og afbakað ástand,“ segir Magnús Stefánsson um slagsmál og áhrifamátt netsins.
Ofbeldisbrotum hefur fjölgað nokkuð frá árinu 2011 og hafa ekki borist fleiri tilkynningar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu líkt og árið 2014 þegar lögreglunni bárust 844 tilkynningar um ofbeldisbrot.

Ofbeldi barna 14 ára og yngri hefur margfaldast frá hruni. Sjö börn á þessum aldri beittu ofbeldi 2014. Aðeins eitt barn árið 2011. Þrjátíu börn á aldrinum 15-17 ára beittu ofbeldi á síðasta ári og 48 árið 2013.

Langstærstur hluti gerenda í ofbeldisbrotum er á aldrinum 21-30 ára, en líkamsárásir hafa lengi verið nátengdar skemmtanahaldi borgarbúa um helgar. Árið 2014 voru um 6% gerenda 17 ára eða yngri.

Þrátt fyrir að tilkynningum til lögreglu fjölgi þá sést aukningin ekki í tilkynningum til Barnaverndar Reykjavíkur. Í yfirliti frá Barnavernd Reykjavíkur sést að fjöldi tilkynninga um að barn beiti ofbeldi og fjöldi barna sem þær varða hefur ekki aukist.

Árlega berast á bilinu 1-5 tilkynningar um að barn yngra en 5 ára beiti ofbeldi. Tilkynningum fjölgar með aldri barnanna. Þannig bárust 36 tilkynningar um ofbeldi barna á aldrinum 6-12 og 104 hjá börnum 13 ára og eldri.

Fjallað var um skipulögð, blóðug slagsmál meðal barna og unglinga í Reykjavík Fréttablaðinu í vikunni. Myndböndum af slagsmálum barnanna var dreift á lokaðri síðu á Facebook. Ofbeldið var rannsakað af lögreglu og er rannsókninni lokið.

Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir þann sem stofnaði síðuna hafa lokað henni. „Við höfðum samband við foreldra drengsins. Ef það kemur ekki fram kæra þá er það í höndum foreldra að taka á málinu. Enginn hefur komið og kært og síðunni hefur verið lokað. Þá kemur þetta okkur ekki við þar til barnið er orðið fullorðið,“ segir hann.

Magnús Stefánsson, fræðslufulltrúi og framkvæmdastjóri Marita-fræðslunnar, sagði í viðtali við Fréttablaðið ljóst að þeim ungmennum sem ganga hvað harðast fram líði mjög illa og rekur líðan þeirra til hrunsins. „Við höfum gleymt okkur í hruninu. Þetta eru börn sem eru alin upp í skugga fjármálakrísu og mikils uppgjörs í samfélaginu. Þau upplifðu reiði foreldranna. Reiði er smitandi. Það hefur gætt ákveðins markaleysis og virðingarleysis í samskiptum frá hruni. Þetta hafa börnin okkar horft upp á.“ Hann heldur því einnig fram að ofbeldi hafi ekki verið svona gróft áður. Börnin séu að berjast fyrir heiðri sínum.

„Ég held að það sé full ástæða til að fullyrða að þetta hefur ekki verið svona gróft áður. Í gamla daga var slegist en þetta er orðið svo miskunnarlaust. Það er mikil pressa á krökkum. Ef það er verið að skora á krakka á þessum slagsmálasíðum þar sem hundruð barna fylgjast með þá er bara að duga eða að drepast. Þau eru að berjast fyrir heiðri sínum. Þetta er orðið svo skrítið og afbakað ástand.“

Í þessu samhengi nefnir hann að í lífi ungmenna í dag gerist hlutirnir hratt og línur á milli hverfa séu horfnar. Netið sé einn samskiptavöllur. „Hverfalínurnar eru horfnar. Þetta er einn samskiptavöllur sem getur breyst í bardagavöll.“


Tengdar fréttir

Slagsmálahópurinn á Facebook sprakk út

Lögreglan rannsakar nú skipulögð slagsmál meðal barna og unglinga. Yfirvöld vita ekki hvað veldur að því er virðist auknum óróa meðal unglinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×