Innlent

Aukakostnaður ekki í byrjunarörðugleikum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Skiptistöðin í Mjódd í Reykjavík. Framkvæmdastjóri SSH segir ávinning af hagræðingu með nýju kerfi eiga að fara í að bæta þjónustuna. Það verði mælikvarðinn á árangurinn þegar fram í sæki.
Skiptistöðin í Mjódd í Reykjavík. Framkvæmdastjóri SSH segir ávinning af hagræðingu með nýju kerfi eiga að fara í að bæta þjónustuna. Það verði mælikvarðinn á árangurinn þegar fram í sæki. Fréttablaðið/Vilhelm
Samgöngur Vandræði hjá Strætó bs. eftir innleiðingu nýs kerfis til að halda utan um ferðaþjónustu fatlaðra hafa fyrst og fremst verið skipulagslegs eðlis, segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. „Uppgjör fyrir janúarmánuð liggur ekki fyrir, en ég held að þessu fylgi enginn kostnaðarauki,“ segir hann, en því hefur verið velt upp í umræðu um Strætó hvort ávinningur af ætlaðri hagræðingu við nýtt kerfi hafi ekki tapast í byrjunarörðugleikum.

Áætlanir Strætó gera ráð fyrir því að kostnaður vegna Ferðaþjónustu fatlaðra nemi á þessu ári 1.277 milljónum króna. Sú áætlun er óbreytt, að sögn Jóhannesar, en upphæðin skiptist þannig að 1.200 milljónir eru vegna aksturs og 77 vegna annars kostnaðar, svo sem við rekstur þjónustuborðs.

„Það sem vantaði inn í kerfið í janúar voru tuttugu bílar og við skrifuðum undir samning vegna þeirra í síðustu viku þannig að þeir fara að tínast inn á næstu vikum.“

Áætlun Strætó segir Jóhannes að miðist við óbreytt kerfi og óbreytta eftirspurn eftir þjónustunni. 

Núna segir Jóhannes alla áherslu lagða á að laga þá hluti sem hafi farið aflaga.

Páll Guðjónsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), sem standa að Strætó bs. segir áætlun Strætó um kostnað vegna Ferðaþjónustu fatlaðra í samræmi við þær tölur sem lagt hafi verið upp með þegar skrifað var undir samning við Strætó um áramótin 2013-2014.

„Áætlun þeirra þá um kostnað við þjónustuborðið og þá þjónustu sem Strætó veitir var um 75 milljónir króna.“

Um leið segir Páll að horfa verði til þess að um mjög viðamiklar breytingar sé að ræða á þjónustunni. Þannig hafi áður þurft langan aðdraganda að því að bóka ferðir sem nú sé hægt að panta samdægurs. Bætt þjónusta kunni að ýta undir aðsókn. 

Eins segir Páll ekki mega gleymast að ekki hafi verið nein ánægja með kerfið eins og það var.

„Í gamla kerfinu var ýmislegt sem ýtti undir að menn færu í þessar breytingar,“ segir hann. Komið hafi upp atvik sem ekki hafi þá ratað í almenna umræðu.

„Ég veit um þó nokkuð mörg,“ segir hann og rifjar upp að blind kona hafi eitt sinn verið skilin eftir á plani fyrir utan stofnun þar sem hún var á leið í læknisskoðun.

Hún hafi bjargað sér með því að hringja á leigubíl og greiddi startgjaldið fyrir að hann leiddi hana upp að dyrum. „Og þetta var í gamla kerfinu.“ 

Keyptu Nous DR frá Trapeze

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fengu á fundi borgarráðs fyrir helgi svör við spurningum sem þeir höfðu lagt fram um miðjan janúar varðandi Ferðaþjónustu fatlaðra. Í tilkynningu þeirra í gær segja fulltrúarnir svörin ófullnægjandi. Þar kemur þó fram að Strætó bs. hafi keypt staðlaðan hugbúnað að nafni Nous DR frá fyrirtækinu Trapeze til að halda utan um ferðaþjónustuna.

Kaup eða gerð kerfisins, sem kostaði 9,2 milljónir króna í uppsetningu og ber 6,1 milljónar króna árgjald, hafi ekki verið boðin út þar sem upphæðin sé undir viðmiðunarmörkum útboða. Þá hafi verið innifalið í uppsetningarkostnaði að starfsmenn Trapeze sáu um innleiðingu kerfisins og þjálfun starfsmanna Strætó.

Þá er enginn beinn kostnaður sagður falla til vegna leiðréttinga á kerfinu og áréttað að starfsfólk Strætó hafi ekki komið að eða séð áætlun um rekstrarsparnað sem átti að ná við útboð á þjónustunni.

Óhjákvæmilegt hafi verið að segja upp öllum starfsmönnum Ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík vegna þess hve víðtækar breytingar voru gerðar. „Allir starfsmennirnir voru hvattir til að sækja um nýjar stöður í þjónustuveri og önnur störf hjá Strætó en því miður höfðu fáir áhuga á því,“ segir í svari Strætó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×