Innlent

Aldrei fleiri tilkynningar um ofbeldisbrot: Leikreglurnar engar og allt sýnt í beinni

Erla Björg Gunnarsdóttir og Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Myndbönd voru tekin af unglingum að slást og var svo deilt á lokaðri Facebook-síðu sem fjölmörg börn undir lögaldri voru meðlimir að.
Myndbönd voru tekin af unglingum að slást og var svo deilt á lokaðri Facebook-síðu sem fjölmörg börn undir lögaldri voru meðlimir að. mynd/stillur úr myndböndum á Facebooksíðu.
Tilkynningum um ofbeldisbrot barna undir lögaldri til lögreglu hefur fjölgað á síðustu árum. Fagmenn segja fjöldann ekki vera áhyggjuefni heldur öfgarnar. Í stað þess að kenna óheilbrigðri unglingamenningu um benda fagmenn fingri á foreldra.

Skipulögð, blóðug slagsmál meðal barna og unglinga í Reykjavík hafa vakið ugg með fólki. Myndböndum af slagsmálum barnanna var dreift á lokaðri síðu á Facebook og er ofbeldið í rannsókn hjá lögreglu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var stofnað til síðunnar vegna persónulegra útistaðna. Þau slagsmál voru tekin upp á myndband. Sá sem tók upp myndbandið kunni ekki að dreifa myndefninu öðruvísi en á Facebook og stofnaði þess vegna sérstaka síðu um það. Síðan, sem var einfaldlega nefnd Slagsmál, vatt upp á sig og fékk upp undir eitt þúsund fylgismenn á skömmum tíma þar sem ungmenni skoruðu á hvert annað í slagsmál. Myndböndin sýna gróft ofbeldi, ungmennin veita þung högg og sparka í höfuð.

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónnVísir/Arnþór
Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn sem fer með rannsókn málsins segir að lögreglan hafi haft upp á stofnanda síðunnar og beðið hann um að loka henni. 

„Svo var talað við foreldra þeirra barna sem forvarnarlögreglumenn þekktu. Það hefur enginn komið og kært þannig að málinu er í raun lokið.“ 

Jóhanni finnst þetta mál vera í raun mál foreldranna og vísar máli sínu til stuðnings til þekkts dægurlagatexta. 

„Það má spyrja foreldrana: „Móðir, hvar er barnið þitt?“ Mér finnst að foreldrar eigi að vita hvar börnin þeirra eru og hvað þau eru að gera. Vita foreldrar til dæmis hvað börnin þeirra eru að gera á Facebook?“ spyr Jóhann og segir að sér finnist ekki eðlilegt að þrettán til fjórtán ára börn fari út í bæ að horfa á aðra unglinga slást og foreldrar viti ekki af því. „Erum við sem samfélag sátt við þá þróun?“

Aldrei fleiri tilkynningar um ofbeldisbrot

Ofbeldisbrotum hefur fjölgað frá árinu 2011 og hafa ekki borist fleiri tilkynningar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en á síðasta ári þegar lögreglunni bárust 844 tilkynningar um ofbeldisbrot.

Langstærstur hluti gerenda í ofbeldisbrotum er á aldrinum 21 til 30 ára, en líkamsárásir hafa lengi verið nátengdar skemmtanahaldi borgarbúa um helgar, segir Jónas Orri Jónasson, félagsfræðingur í upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar.

Þórólfur Þórlindsson, félagsfræðingur, hefur rannsakað ofbeldi meðal unglinga.
Slagsmálin eru sýningaratriði 

Við þurfum að átta okkur á því að stærstur hluti unglinga er til fyrirmyndar. Sannleikurinn er sá að heldur hefur dregið úr vandamálum af þessu tagi á síðustu tuttugu árum,“ segir Þórólfur Þórlindsson félagsfræðingur sem hefur rannsakað ofbeldi meðal unglinga í gegnum tíðina.

„Hins vegar verðum við að hafa í huga að umburðarlyndi okkar gagnvart ofbeldi er miklu minna í dag en það var. Það gæti fjölgað tilkynningum um ofbeldisverk.“ 



Þórólfur segir að slagsmál og áflog hafi verið býsna algeng meðal unglinga áður fyrr. Hann segir formið hins vegar hafa breyst verulega. „Áður fyrr giltu ákveðnar reglur í slagsmálum. Leikreglurnar voru skýrari og til að mynda ódrengilegt að ráðast margir á einn eða sparka og kýla ítrekað í höfuð. Slagsmálin í dag virðast vera orðin einhvers konar sýningaratriði, þau eru eiginlega sviðsett. Það eru áhorfendur og tekið upp myndband. Það er rétt að hafa í huga að ofbeldistilvikin þurfa ekki að vera mörg til að vekja mikla athygli þegar þessu er dreift út um allt eins og nú er. Þetta er breytt landslag. Við verðum að gæta okkar á því að fordæma ekki allt unga fólkið út frá örfáum dæmum.“

15 sekúndna frægð

Óli Örn Atlason, uppeldis- og menntunarfræðingur, hefur haldið fjölmarga fyrirlestra um unglinga og netið. Hann tekur undir orð Þórólfs.

„Þetta snýst um viðurkenningu frá jafningjahópnum. Þannig hefur það alltaf verið með unglinga. Með samfélagsmiðlunum er hægt að fá margfalt meiri viðurkenningu og viðbrögð. Fólk er að fá 15 sekúndna frægð með myndböndunum. Það eru svo margir sem vilja sýna sig og sanna þannig að maður þarf alltaf að ganga lengra, koma með eitthvað nýtt, eitthvað krassandi.“

Óli Örn bætir við að foreldrar séu almennt illa upplýstir um miðlana sem börnin þeirra nota enda hafi tækninni fleygt fram afar hratt. „Foreldrar verða að gefa sér góðan tíma til að kynna sér þetta. Þeir þurfa einnig að tala meira saman. Þegar foreldrahópurinn er orðinn upplýstari og stendur saman er hann mun fljótari að taka eftir því ef eitthvað er ekki í lagi og fljótari að grípa inn í.“

Upplifa reiði foreldra 

Magnús Stefánsson, fræðslufulltrúi og framkvæmdastjóri Marita-fræðslunnar, segir ljóst að þeim ungmennum sem ganga hvað harðast fram líði mjög illa. Hann rekur líðan þeirra til hrunsins. 

„Við höfum gleymt okkur í hruninu. Þetta eru börn sem eru alin upp í skugga fjármálakrísu og mikils uppgjörs í samfélaginu. Þau upplifðu reiði foreldranna. Reiði er smitandi. Það hefur gætt ákveðins markaleysis og virðingarleysis í samskiptum frá hruni. Þetta hafa börnin okkar horft upp á.“

Hann segir tilfinningaþroska barnanna hafa beðið skaða. „Það er svo mikill hraði á okkur, við gefum ekki unglingunum okkar þann tíma sem þeir þurfa og til að rækta upp í þeim manneskjuna. Slagsmálin eru ein birtingarmynd, of mikil netnotkun er önnur birtingarmynd þessarar vanrækslu.“ 

Magnús bætir við að gallinn við fréttaflutning af áhættuhegðun á netinu sé að smithættan sé mikil. „Ég vil helst ekki nefna þessar síður og auðvelda þeim aðgang að þeim.“

 

Guðbjörg Kristín Ludvigsdóttir, læknir
Mörg alvarleg höfuðmeiðsl afleiðingar líkamsárása 

Að meðaltali koma fimm til sex á Grensás á hverju ári vegna alvarlegs höfuðhöggs eftir líkamsárás.

„Þetta eru bara þeir sem koma til okkar. Einhverjir eru ekki svo heppnir að lifa höfuðhöggið af,“ segir Guðbjörg Kristín Ludvigsdóttir, læknir á Grensás.

„Það er misjafnt hvaða eftirstöðvar fólk situr eftir með. Alveg frá vægum skerðingum eins og tapi á bragð- eða lyktarskyni upp í að vera hreinlega alveg út úr heiminum eða ná ekki meðvitund.“

Guðbjörg segir eitt högg á höfuðið geta breytt lífi einstaklings varanlega. Þá skiptir ekki öllu máli hve þungt höggið er.

„Það skiptir máli hvar viðkomandi er sleginn í höfuðið. Það er erfitt að meta hvað sé vægt höfuðhögg og hvað ekki. Það þarf stundum svo lítið.“

Guðbjörg bendir á nýlega könnun sem sýnir að 76% boxara séu með varanlegar skemmdir í heila sem sjást á mynd. „Þetta getur verið vitræn skerðing, einkenni Parkinson, þrálátur höfuðverkur, þreyta og meiri líkur á minnisglöpum,“ segir Guðbjörg og bætir við að henni þyki óskiljanlegt í ljósi þessara upplýsinga að bardagaíþróttir þar sem lamið er í höfuð séu leyfðar og vísar þar til að mynda til MMA-bardagaíþróttarinnar sem Gunnar Nelson stundar og hefur notið vaxandi vinsælda meðal landans undanfarin ár.

Haraldur Nelson, framkvæmdarstjóri Mjölnis og faðir Gunnars Nelson
Algjör vanþekking á íþróttinni

Haraldur Nelson, framkvæmdastjóri Mjölnis, segir jafn fáránlegt að bera saman slagsmál unglinga og MMA-íþróttina og að bera saman glæfralegan hraðakstur í miðbæ Reykjavíkur og kappaksturs­íþróttir. Slíkt lýsi einfaldlega algjörri vanþekkingu á málinu og sé marklaust tal út í loftið. 

„Ég sá þessi myndbönd með slagsmálunum í fréttunum og þetta er skelfilegt að horfa upp á. Bókstaflega nístir mann. En svona slagsmál eiga ekkert skylt við bardagaíþróttir. Þar ertu með þrautþjálfaða íþróttamenn sem keppa eftir alþjóðlegum reglum íþróttarinnar, með miklum öryggisskilyrðum og með dómara og lækni sem geta stöðvað keppnina. En svona slagsmál og líkamsárásir eins og sjást á myndböndunum fordæmum við að sjálfsögðu rétt eins og allir hugsandi einstaklingar hljóta að gera. Þetta eru ofbeldismenn og eiga ekkert skylt við íþróttamenn í bardagaíþróttum. Það særir okkur auðvitað að vera dregin inn í svona umræðu enda hefur þetta ekkert með bardaga­íþróttir að gera.“

Haraldur bætir við að strangar reglur séu í Mjölni. Allir meðlimir skrifi meðal annars undir samning um að framfylgja siðareglum og nýta sér ekki þekkinguna og færnina sem þeir öðlast til ofbeldisverka. 

„Við erum þrír stofnfélagar fyrrverandi lögreglumenn og við tökum mjög sterka afstöðu gegn því að hleypa mönnum hingað inn sem við treystum ekki til að fylgja þessum reglum. Við höfum nokkrum sinnum neitað mönnum um aðgang sem við vitum að beita ofbeldi, til að mynda handrukkurum og öðrum. Það kemur ekkert annað til greina.“

Haraldur hefur þó áhyggjur af öðrum bardagaíþróttafélögum sem setja mögulega ekki eins stífar reglur og viðmið og Mjölnir eða fylgja þeim ekki eins fast eftir.

„Þess vegna þarf að gera íþróttina löglega. Þá yrði eftirlitið eflt og hlutirnir gerðir á faglegri hátt. En það er á hreinu að þessir klúbbar hverfa ekki með því að banna þá. Menn hafa stundað bardagaíþróttir frá örófi alda. Gerum þetta af skynsemi og fagmennsku svo fólk hafi frelsi til að stunda sitt sport á eins öruggan hátt og unnt er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×