Lífið

Hvenær verður stelpa kona?

Leikhópurinn Konubörnin sex sem sömdu leikritið og leika í því. Frá vinstri: Eygló (efri röð), Þórdís (neðri röð), Ásthildur, Ebba, Sigurlaug Sara og Þórey.
Leikhópurinn Konubörnin sex sem sömdu leikritið og leika í því. Frá vinstri: Eygló (efri röð), Þórdís (neðri röð), Ásthildur, Ebba, Sigurlaug Sara og Þórey. vísir/stefán
Framtíðardeild Gaflaraleikhússins frumsýnir Konubörn á miðvikudag. Núna um helgina verður aftur á móti fyrsta rennsli með áhorfendum og því skiljanlega kominn frumsýningarfiðringur í mannskapinn. „Ég er með hlýjan tilhlökkunarfiðring,“ segir Björk Jakobsdóttir, leikstjóri Konubarna. „Oft er ég með verkkvíða og stresshnút svona skömmu fyrir frumsýningu en ég hlakka bara til núna.“

Leikritið er samið af sex ungum konum, á aldrinum 20-23 ára, sem einnig leika í verkinu. Þær velta fyrir sér hvenær maður verði eiginlega fullorðinn. Hvort það sé þegar maður hætti að borga barnagjald í sund eða þegar maður fermist eða þegar maður hættir að skammast sín fyrir að kaupa túrtappa? Eða jafnvel þegar maður fer að nota orð eins og meðvirkni og öll boð eru með sushi og kampavíni?

„Þær leituðu til okkar með þessa hugmynd og svo unnum við verkið saman,“ segir Björk. „Það er svo miklu skemmtilegra þegar leikrit fyrir ungt fólk eru skrifuð af ungu fólki og leikin af ungu fólki í staðinn fyrir forvarnarleikrit þar sem fimmtug kona leikur ungling. Leikritið er um konubörn, þær eru ekki lengur stelpur en samt ekki orðnar konur, og fjallar um það sem brennur helst á þeim í dag – svo sem útlitsdýrkun, femínisma og andstæðurnar í lífinu. Þetta eru flottar ungar konur, frábærar leikkonur og svo sterkar og sjálfstæðar. Þær eru af flottri, sterkri stelpukynslóð.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×