Skoðun

Ráðherrar á bensíngjöfinni

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
Fáir deila um að loftlagsbreytingar af mannavöldum er staðreynd. Þjóðarleiðtogar sækja loftslagsráðstefnur og setja metnaðarfull markmið sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Meira að segja páfinn lætur til sín taka og viðurkennir vandann. En á hverju strandar? Væntanlega er áskorunin sú að allt of fáir eru tilbúnir að breyta um lífsstíl, þ.e. taka skref sem skipta máli og ganga út á að minnka notkun á jarðefnaeldsneyti með öllum ráðum. Hjá því verður þó ekki komist ef við ætlum að snúa þróuninni við.

Ég verð því alltaf jafn undrandi þegar fréttir berast af bílakosti ráðherra. Til dæmis keyrir utanríkisráðherra um á Land Rover-jeppa og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á Land Cruiser-jeppa. Ég hefði haldið að ráðherrar, æðstu embættismenn þjóðarinnar, myndu ganga á undan með góðu fordæmi og kaupa eins vistvæna bíla og mögulegt er þegar gömlum bílum er skipt út. Það eru örugglega til raf- eða metanbílar sem eru svartir og glansandi ef það er eitthvað atriði. En kannski finnst ráðherrunum að það snúi bara að okkur hinum að berjast gegn þeirri ógn sem loftslagsbreytingar eru.

Nýlega fékk ég svar við fyrirspurn minni til umhverfisráðherra þar sem ég spyr m.a. um stefnumótun ráðherra út frá umhverfissjónarmiðum þegar kemur að endurnýjun ráðherrabifreiða. Í stuttu máli er svarið að það er engin stefna. Ráðherrar virðast geta keypt þá bíla sem þeir vilja eins og dæmin sanna. Á sama tíma er stjórnarráðið með umhverfisstefnu þar sem eitt markmiðið er „að efla vistvænar samgöngur í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum“ og því skal fylgt eftir með eftirfarandi aðgerð; „við kaup á bifreiðum fyrir ráðuneytin skal velja sparneytin og vistvæn ökutæki“.

Annaðhvort þekkja ráðherrar ekki umhverfisstefnu stjórnarráðsins og skuldbindingar Íslands varðandi loftslagsmál eða þeim er alveg sama. Ég veit ekki hvort er verra.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×