Viðskipti innlent

AGS telur miklar launahækkanir ógna stöðugleika

ingvar haraldsson skrifar
Sendinefnd AGS kynnti niðurstöður sínar í morgun.
Sendinefnd AGS kynnti niðurstöður sínar í morgun. vísir/gva
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) telur háar launakröfur verkalýðshreyfinga ógna stöðugleika hér á landi.

Verði launahækkanir að veruleika telur AGS að verðbólga muni hækka hratt og Seðlabankinn muni neyðast til að grípa til aðgerða til að hafa hemil á verðbólgu. Þá ættu stjórnvöld einnig að bregðast við með því að draga úr ríkisútgjöldum.

Sendinefnd AGS kynnti í morgun skýrslu sjóðsins um stöðu efnahagsmála hér á landi. Þar kom fram að þær launahækkanir sem nú séu til umræðu í kjaraviðræðum séu langt umfram það sem framleiðniaukning í hagkerfinu standi undir. Því megi búast við þenslu og hitnun hagkerfisins á þessu ári vegna mikilla launahækkana en í kjölfarið muni hægja á hagvexti vegna harðari aðgerða í peningamálum.

Þá segir AGS einnig að miklar launhækkanir séu til þess fallnar að tefja fyrir afnámi gjaldeyrishafta.  



Telja brýnt að greiða niður skuldir


AGS segir að stjórnvöld séu á góðri leið með að lækka skuldir ríkisins. Hins vegar þurfi að grípa til frekari aðgerða til að draga úr ríkisútgjöldum til skamms og meðallangs tíma. Þá þurfi stjórnvöld að vera undirbúin ef yfirvofandi dómsmál vegna skattlagningar á fjármálafyrirtæki tapast.

Einnig sé brýnt að nýta það fé sem fellur til vegna einsskiptisskattlagningar til að greiða niður skuldir og draga þar með úr vaxtagreiðslum ríkisins.

Lesa má skýrslu sendinefndar AGS um stöðu efnahagsmála á Íslandi í heild sinni í skjalinu hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×