Innlent

Bílar tættir í sundur í Hafnarfirði

Snærós Sindradóttir skrifar
Bílarnir bíða eftir því að kló, sem þolir hátt í fimm tonn, taki þá og troði í tætarann.
Bílarnir bíða eftir því að kló, sem þolir hátt í fimm tonn, taki þá og troði í tætarann. vísir/anton
Guðlaugur G. Sverrisson
Bílum sem sendir eru til förgunar ár hvert hefur fjölgað. Fjöldinn féll við efnahagshrunið 2008 en er við það að ná jafnvægi að mati Guðlaugs Sverrissonar, rekstrarstjóra Úrvinnslusjóðs.

„Þegar best lét tókum við á móti 9.000 bílum. Við erum að nálgast það sem við reiknuðum með að við ættum að taka á móti á hverju ári. Þetta er eðlileg endurnýjunarþörf,“ segir Guðlaugur. Hann bendir á að lífaldur bíla hafi hækkað eftir hrun. Árið 2007 var meðalaldur bíla sem kom til förgunar 13,9 ár en stendur nú í 14,8 árum.

Hann segir skráningu á ökutækjum góða hér á landi. Þá spili inn í að bílar hverfi ekki svo glatt, enda ekki hægt að keyra yfir landamæri. „Það er talið að afskráðir bílar í Evrópu séu um sex milljónir árlega. Af þeim skila sér bara fjórar milljónir rétta boðleið. Tvær milljónir hverfa. Menn keyra þetta yfir til Austur-Evrópu, Rússlands eða suður til Miðjarðarhafsins og þaðan yfir til Afríku.“





Á Íslandi er 20 þúsund króna skilagjald á bifreið sem fer til förgunar. Svipað fyrirkomulag og á gosflöskum. „Við settum þetta skilagjald á til að standa undir því að þú lendir ekki í neinum kostnaði við að koma bílnum í förgum. Ef það gengur allt vel þá eyðir þú þessu bara í bjór og vitleysu,“ segir Guðlaugur.

Fura málmendurvinnsla er sú eina á landinu sem starfrækir járntætara af þeirri stærðargráðu sem þar er. Tætarinn kom hingað til lands árið 1990 og er fljótur að tæta í sig heilu bílflökin. Brotajárnið er svo selt í járnblendi til útlanda. Fura sendir frá sér 4.500 tonn í einu af járnarusli tvisvar til þrisvar sinnum á ári.

Úlfar Haraldsson, fjármálastjóri Furu, tekur eftir fækkuninni sem orðið hefur á bílum til förgunar. Áður fyrr hafi oft lítið verið að bílum sem komu til förgunar. „Menn keyrðu bara bílinn inn, búnir að fá nóg af honum.“

Hann segir að það falli þó alltaf eitthvað til. „Það er orðin meiri umhverfisvitund þannig að menn eru farnir að nýta hlutina betur og koma þeim í réttan farveg. Með förgun ertu að endurvinna í stað þess að grafa í jörðina.“

Verð á brotajárni hefur hríðfallið síðustu misseri og það hefur áhrif á afkomu fyrirtækisins. Úlfar hefur samt ekki miklar áhyggjur af því. Fyrirtækið sé nógu stöndugt til að ráða við verðhrunið. „Þetta eru bara bylgjur. Nú er spurning hvort ég held í mér að senda út þar til verðið hækkar eitthvað aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×