Sigmar Gabriel, varakanslari Þýskalands, segir Evrópu vera að gefast upp á Grikkjum. Hann segir að Grikkir þurfi að taka til frekari aðgerða til að rétta úr efnahagi sínum. Vilji sé til að halda þeim í evrusamstarfinu en tíminn sé að renna út.
„Alls staðar í Evrópu, er viðhorfið á þann veg að nú sé nóg komið,“ skrifaði Sigmar í grein á vef Bild.
Grikkir reyna nú að semja og safna fé fyrir greiðslu til AGS sem þeir þurfa að borga í lok mánaðarins. Alls er greiðslan einn og hálfur milljarða evra, eða um 225 milljarðar króna. Kröfuhafar Grikkja fara fram á frekari niðurskurð þar í landi.
Grikkir vilja hins vegar ekki fara eftir þeim kröfum og þá sérstaklega þeirri kröfu að dregið verði úr kostnaði ríkisins vegna lífeyris.
Núverandi stjórnvöld Grikklands voru kosin á því loforði að þau myndu draga úr aðhaldsaðgerðum, hækka lágmarkslaun og skapa fleiri störf. Samkvæmt BBC varaði forsætisráðherra Grikklands hins vegar við erfiðri málamiðlun.
