Viðskipti innlent

Tollabreytingar risaskref fyrir neytendur

Una Sighvatsdóttir skrifar
Nýr samningur um viðskipti með landbúnaðarvörur felur í sér að tollar verða felldir niður á 340 vöruflokkum og lækkaðir á 20 flokkum til viðbótar. Sem lítið dæmi má nefna að tollfrjáls kvóti fyrir innflutning á sérostum eykst úr 20 tonnum í 230 tonn, sem þýðir að vinsælir erlendir ostar, eins og til dæmis parmesanostur, ættu að lækka í verði.

En það eru ekki bara ostaunnendur sem geta glaðst því tollar verða felldir niður fleiri vörum, s.s. frönskum kartöflum og ís, ungbarnamat, pasta og kexi. Mestu munar þó líklega um aukna tollfrjálsa inn- og útflutningskvóta. Þannig munu íslenskir framleiðendur til dæmis geta flutt út tollfrjáls rúm 3000 tonn af lambakjöti í stað 1850 áður og 4000 tonn af skyri í stað 380 áður.

Innflutningskvótar margfaldast sömuleiðis. Unnt verður að flytja tollfrjálst inn tæp 700 tonn af bæði nauta- og svínakjöti í stað 100-200 tonna áður, og tollfrjáls kvóti með alifuglakjöt fjórfaldast úr 200 tonnum í rúm 850 tonn.

Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu segir þessar tollabreytingar vera risaskref. „Þetta snertir okkur að miklu leyti og neytendur og allir ættu að fagna. Og ég vil sérstaklega nefna líka ða mér finnst þetta mikill kjarkur í stjórnvöldum og mér finnst Sigurður Ingi landbúnaðarráðherra og hans fólk, sem var með honum í þessum viðræðum, eiga hrós skilið. Það er nú ekki oft sem er verið að hrósa, en mér finnst að við eigum að gera það, af því að þetta er stórt skref."

Enn á eftir að ganga frá smátriðum samningsins svo hann tekkur ekki gildi fyrr en um áramótin 2016-2017. „Auðvitað á eftir að samþykkja þetta bæði hér og líka í aðildarríkjunum, en vonandi er það bara formsatriði," segir Margrét. Og hún segir almenning geta treyst því að breytingarnar skili sér raunverulega til neytenda.

„Já, það verður þannig. Þetta skilar sér algjörlega til neytenda. Það er mikil samkeppni og þetta er baráttumál. Við, og Así, sem erum með verðlagseftirlit, Neytendasamtökin og við öll gleðjumst og stöndum saman um að sýna fólki fram á að þetta skilar sér til neytenda."


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×