Skoðun

Fara aldraðir í mál við ríkið?

Björgvin GuðmundssoN skrifar
Aldraðir eru orðnir langþreyttir á aðgerðaleysi stjórnvalda í kjaramálum þeirra. Og þá sjaldan eitthvað er gert í lífeyrismálum þeirra er það skorið við nögl og þannig undirstrikað rækilega, að stjórnvöld líti á aldraða sem annars flokks borgara, sem megi sitja á hakanum! Af þessum sökum hafa eldri borgarar hugleitt nýjar leiðir í kjarabaráttunni. Hugsanleg málsókn gegn ríkinu hefur verið rædd í því sambandi.

Verið að brjóta stjórnarskrána?

Í 76. grein stjórnarskrárinnar segir, að ríkið eigi að veita öldruðum aðstoð, ef þörf er á. Þetta ákvæði hefur verið túlkað svo í réttarsölunum, að þeir, sem þurfi aðstoð ríkisins til framfærslu, eigi að fá aðstoð, sem geri þeim kleift að taka eðlilegan þátt í samfélaginu. Heyrnarlausa stúlkan, Snædís Hjartardóttir, sem ekki fékk tilskilda túlkaþjónustu, gat ekki tekið eðlilegan þátt í samfélaginu vegna þess að hún fékk ekki þessa þjónustu. Menntamálaráðherra sagðist ekki hafa peninga en sú mótbára dugði ekki í réttarsalnum.

Stjórnarskráin er ofar fjárlögum. Stúlkan hafði stjórnarskrárvarinn rétt til túlkaþjónustu og þess vegna vann hún málið. Ég hef trú á því, að það sé einnig talinn stjórnarskrárvarinn réttur eldri borgara að fá nægilegan lífeyri frá almannatryggingum til þess að geta tekið eðlilegan þátt í samfélaginu. Þeir eldri borgarar, sem hafa einungis lífeyri frá TR, geta það ekki í dag. Lífeyrir almannatrygginga dugar ekki fyrir brýnustu útgjöldum þeirra. Sumir eldri borgarar, sem hafa minnst frá almannatryggingum, hafa ekki fyrir mat síðustu daga mánaðarins. Slík meðferð á eldri borgurum stenst ekki fyrir lögum og stjórnarskrá. Það er verið að brjóta mannréttindi á þessum eldri borgurum.

192 þúsund á mánuði!

Einhleypur ellilífeyrisþegi, sem einungis hefur tekjur frá TR, hefur ekki nema 192 þúsund kr. á mánuði eftir skatt. Það lifir enginn mannsæmandi lífi af svo lágri upphæð í dag miðað við mikinn húsnæðiskostnað. Það er ekki aðeins, að þeir geti ekki veitt sér neitt heldur hafa þeir ekki fyrir brýnustu nauðsynjum. Þeir sem eru í þessari stöðu geta ekki tekið eðlilegan þátt í samfélaginu. Það er kominn tími til að við breytum þessu. Við þurfum að veita þessum þegnum þjóðfélagsins viðunandi lífskjör.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×