Viðskipti innlent

Breytingar á neyslumynstri: Of snemmt að lýsa yfir dauða sjónvarpsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Liv Bergþórsdóttir, Orri Hauksson, Stefán Sigurðsson og Sævar Freyr Þráinsson.
Liv Bergþórsdóttir, Orri Hauksson, Stefán Sigurðsson og Sævar Freyr Þráinsson. Vísir/Anton
Þörf er á mikilli fjárfestingu í innviðum fjarskiptaneta hér á landi. Þá eru neyslumynstur að breytast og fjölmörg tækifæri munu stinga upp kollinum á næstu árum. Þetta kom fram í máli forstjóra fjögurra stórra fjarskiptafyrirtækja sem ræddu málefni geirans, vandamál og tækifæri á fundi Landsbankans í Silfurbergi í Hörpu í gær. 

Sveinn Þórarinsson, hlutabréfagreinandi hjá Hagfræðideild Landsbankans, stýrði fundinum og fjallaði um stöðu, þróun og tækifæri á fjarskiptamarkaði. Þess á milli gaf hann þeim Liv Bergþórsdóttur, forstjóra Nova, Orra Haukssyni, forstjóra Símans, Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra 365, og Stefáni Sigurðssyni, forstjóra Vodafone orðið.

Glærur Sveins af fundinum má sjá hér. Farið er yfir helstu atriði fundarins á vef Landsbankans.

Þegar fjarskiptamarkaðurinn var ræddur sagði Sveinn að fjöldi farsíma á Íslandi hefði verið stöðugur undanfarin ár, en hins vegar hefði gagnaumferð um farsímanetið aukist mjög. Þó væri gagnamagn sem flutt væri um farsímanetið á Íslandi mun minna en á Norðurlöndunum, miðað við mannfjölda.

Liv Bergþórsdóttir sagði Nova telja að gagnaflutningur um farsíma myndu aukast mikið.

„Við trúum algjörlega á þráðlausa framtíð. Framlegðin er í þessum hluta og við ætlum að fókusera á þennan hluta. Þarna er vöxturinn.“

Hins vegar benti Orri Hauksson á að farsímanet í heiminum flyttu um tvö til þrjú prósent af heildargagnamagninu. Að langstærsti hluti gagna sem sótt eru með farsímum færu í gegnum fastlínunet, sem sagt Wi-Fi, og ætla mætti að það hlutfall myndi aukast á næstu árum.

„Þannig að þegar við horfum á gagnamagn um farsímakerfið, þá erum við að horfa á mjög lítinn hluta markaðarins.“

Fyrsti hluti - Farsíminn

Fundur Landsbankans um fjarskiptamarkaðinn - farsíminn from Landsbankinn þinn on Vimeo.

Um fjórðungur allra nettenginga fara nú um ljósleiðara og í erlendum samanburði er Ísland framarlega í ljósleiðaratengingum.

Orri sagði Ísland vera í óvenju góðri stöðu og benti á að Míla, dótturfyrirtæki Símans, hefði tilkynnt að næsta skref í uppfærslu á tengingum myndi snúast um að fjölga ljósleiðaraheimtaugum. Þannig yrðu 30 þúsund heimili tengd með þessum hætti í lok næsta árs.

Hann sagði hraða og gæði tengingar skipta neytendur meira máli en nákvæmlega með hvaða tegund af heimtaug gögnin væru flutt. Neyslan væri að breytast úr niðurhali í streymi og því væri góð og stöðug tenging mikilvæg.

Stefán sagði aftur á móti að fólk myndi yfirleitt finna leiðir til að nota aukinn hraða. Á sínum tíma hefði verið rætt um að 3G væri alveg nóg, en annað hefði komið á daginn. Því væri ótímabært að tala um að gagnamagn væri of mikið.

Liv sagði farsímanotkun hafa breyst á milli 3G og 4G og nú væri meira af myndefni streymt í farsímana. Þar að auki yrðu í framtíðinni fleiri heimilistæki tengd við netið. Nefndi hún þar ísskápa, þvottavélar, brauðristar og fleira. Það kalli á meiri gagnaflutning.

Sævar sagði slaginn á milli Mílu og Gagnaveitunnar koma fyrirtæki eins og 365 vel. Að kröfur viðskiptavina um gæði myndflutninga um netið væru sífellt að aukast og því væri mikilvægt að innviðirnir væru góðir.

Annar hluti - Internetið

Fundur Landsbankans um fjarskiptamarkaðinn - internetið from Landsbankinn þinn on Vimeo.

„Gamla virðiskeðjan um framleiðslu og dreifingu á sjónvarpsefni er að rofna. Það eru allir með öllum í öllu,“ sagði Sveinn þegar umræðan sneri að sjónvarpinu. Þar vísaði hann til þess að skilin á milli þeirra sem framleiða efnið og dreifa því hafa orðið sífellt óskýrari.

Hann sagði fjölmiðlafyrirtæki vera orðin fjarskiptafyrirtæki og öfugt. Að áskriftum að sjónvarpsstöðvum hefði fækkað á heimsvísu og sjónvarpsefni væri streymt í meira mæli.

Liv sagði eldri kynslóðir enn vera tilbúnar til að borga fyrir áskrift að sjónvarpsstöðvum, en yngri kynslóðir væru það ekki.

Að mati Stefáns er fjölbreytni að aukast á sjónvarpsmarkaði en línulegt sjónvarp myndi þó halda áfram. Hið sama mætti segja um VOD eða frelsisþjónustu. Þá sagði hann að þó hægt væri að ná í ódýrt eða ókeypis sjónvarpsefni með ýmsum krókaleiðum væru mjög margir sem hefðu engan áhuga á slíku og vildu nálgast efni með þægilegum hætti.

Orri minnti á að bókinni hefði verið spáð dauða þegar kvikmyndin kom til sögunnar og sama hefði verið á teningnum með sjónvarpið og kvikmyndir.

„En yfirleitt þróast hlutirnir ekki svona,“ sagði hann. „Við teljum að þessi línulega neysla eigi undir högg að sækja en hún er ekkert búin, það verða áfram til sjónvarpsstöðvar.“

Að sögn Sævars er framlegð fyrirtækja sem framleiða sjónvarpsefni víða góð. Þó fjölmiðlar á Íslandi hefðu ekki skilað ásættanlegri framlegð væri hún mun betri hjá fjarskiptafyrirtækjum.

„Þetta er ástæðan fyrir því að við förum inn á markaðinn. Við erum í raun að elta fyrirtæki eins og Virgin og Sky.“

Sævar sagðist sannfærður um að sá aðili sem mun opna á netin sín muni ná bestum árangri.

„Ég mun fyrst fara að hagnast almennilega á þessum markaði þegar ég fer að opna á efnið okkar þannig að það sé í boði í heildsölu. Sé í boði þannig að fólk geti pantað sér leik þegar því hentar, einn leik í einu. Að Síminn og Vodafone geti selt okkar stöðvar sem hluta af sínu framboði. Þetta er það sem þessi heimur fari út í.“

Þriðji hluti – Sjónvarp

Fundur Landsbankans um fjarskiptamarkaðinn - sjónvarp from Landsbankinn þinn on Vimeo.

Í lok fundarins fóru fram pallborðsumræður þar sem Sveinn ræddi við forstjórana um málefni eins og mikla og vaxandi fjárfestingaþörf og regluverk þrengdu að uppbyggingu.

Fjórði hluti - Pallborðsumræður

Fundur Landsbankans um fjarskiptamarkaðinn - umræður from Landsbankinn þinn on Vimeo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×