Viðskipti innlent

Spáir því að gjaldeyrishöftin verði við lýði á meðan krónan lifir

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Heiðar Már Guðjónsson.
Heiðar Már Guðjónsson. Vísir/Anton
Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, spáir því að gjaldeyrishöft verði hér á landi svo lengi sem við búum við gjaldmiðilinn krónuna. Hann hefur þó, eftir að útlit var fyrir að samið yrði við gömlu bankana, tekið tilbaka hrunspá sína fyrir árið 2016.

„Ég myndi segja að þetta væri miklu eðlilegra ástand sem við erum í núna heldur en það ástand sem við höfum verið í síðastliðin sjö ár,“ sagði Heiðar en hann var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Viðtalið má heyra hér að ofan.

Heiðar skrifaði greinina Hrunið 2016 árið 2012. „Ég skrifaði síðan fleiri greinar þarið 2012 um nákvæmlega hvernig uppgjörið yrði í kringum gömlu bankana; að erlendu kröfuhafarnir fengju að fara út með allt sitt og Íslendingar yrðu skildir eftir með reikninginn. En nú sem betur fer lítur allt út fyrir að það verði öfugt, að erlendu kröfuhafarnir skilji eftir fimm hundruð milljarða.“

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.vísir/gva
Haftaaðall stjórnar því hverjir eru í höftum

Heiðar er jákvæður hvað varðar ástand íslenska hagkerfisins næstu fjögur, fimm árin en hann er ómyrkur í máli þegar kemur að gjaldeyrishöftunum.

„Ég held að núverandi embættismenn vilji ekkert taka höftin af,“ segir Heiðar. „Þau verða bara áfram á meðan við erum með þennan gjaldmiðil. Vegna þess að embættismennirnir treysta honum ekki til að fljóta eða standa á eigin löppum.“ Hann segir sérkennilegt hvernig menn segja eitt en gera annað. „Seðlabankinn er búinn að tala um það í hvert einasta skipti sem hann herti á höftunum og fékk þingið til að setja meira íþyngjandi lög og reglur að það væri allt gert til þess að létta á höftunum.“

Sjá einnig: Már vildi ekki Heiðar má og tilkynnti það símleiðis

Heiðar hefur átt í deilum við Seðlabankann smá ná allt aftur til ársins 2010 þegar Már Guðmundsson Seðlabankastjóri tilkynnti það símleiðis að hann vildi ekki að Heiðar kæmi að kaupum á Sjóvá.

Heiðar var í viðtali við Klinkið um valkosti Íslands í gjaldeyrismálum á síðasta ári.
Hann segir að það verði til haftaaðall sem stýrir því hverjir séu fastir í höftum og hver ekki. „Ég hef nú bitra reynslu af samskiptum mínum við Seðlabankann og fleiri í atvinnulífinu þannig að það er nú uppspretta einhvers konar spillingar eða gerræðis.“

Hann hefur lengi talað fyrir upptöku Kanadadollarans hér á landi. Hann bendir á að lítið land eins Ísland geti ekki stýrt öllu hagkerfinu, það sé háð ytri skilyrðum.

Stjórnmálamenn vilja hafa peningaprentvélina hjá sér

„Við ætlum að reyna að stýra okkar málum eins og við höfum fulla stjórn á því sem gerist. Þess vegna hef ég alltaf sagt að það þýðir ekkert fyrir okkur að standa ein og sér með eigin mynt eða eitthvað slíkt. Þessi mynt hefur alltaf búið við óstöðugleika, hún hefur ekki verið öryggisventillinn sem ég er að óska eftir að sé til staðar.“

Rætt hefur verið um upptöku evrunnar hér á landi.vísir/getty
Þá bendir hann á í viðtalinu að Ísland hefði ekki komist í sömu ógöngur og urðu raunin hér rétt fyrir hrun hefði þjóðin búið við evru til að mynda.

Sjá einnig: Heiðar Már heldur kröfu um gjaldþrotaskipti yfir Kaupþingi til streitu

„Við hefðum náttúrulega aldrei lent í svona miklum uppgangi, við hefðum aldrei fengið jafnmikla innspýtingu af erlendu lánsfé,“ útskýrir Heiðar. „Íslensku bankarnir hefðu aldrei náð að þenjast svona mikið út. Það hefðu allir séð að íslenski Seðlabankinn hefði ekki getað prentað evrur og það var þá enginn lánveitandi til þrautavara þar á bakvið.“

En hvers vegna er ekki farið í að skipta um gjaldmiðil?

„Stjórnmálamenn eru menn sem vilja stjórna, vilja hafa völdin hjá sér og treysta sér til að hafa vit fyrir öðru fólki. Ég held að það sé ekkert vit í að hafa eigin mynt, það sést á þessari sorgarsögu krónunnar sem hefur staðið í núna hundrað ár. Ég held að þó að almenningur myndi gjarnan vilja sína mynt og nota bara það sem gefst best alþjóðlega en þó að almenningur vilji það þá líður stjórnmálamönnum svo vel að hafa peningaprentvélina hjá sér vegna þess að ef eitthvað kemur upp á þá geta þeir alltaf farið að prenta peninga.“

Þáttastjórnendur spurðu hvort málið snerist þá um völd.

„Já þetta snýst um að eiga útgönguleið. Þegar þú gerir mistök geturðu bara breitt yfir það með peningum.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Heiðar Má í heild sinni hér að ofan en þar er rætt um vexti hér á landi og í Evrópu, skuldir sveitarfélaganna og fleira.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×