Handbolti

Róbert komst á blað í öruggum sigri

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Róbert ræðir hér við Narcisse.
Róbert ræðir hér við Narcisse. Vísir/getty
Róbert Gunnarsson komst á blað með eitt mark í tíu marka sigri Paris Saint-Germain á Besiktas í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag. Þá vann Kiel fjögurra marka sigur á Flensburg á heimavelli í sömu keppni.

Róbert og félagar mættu tyrkneska félaginu Besiktas í Tyrklandi en þeir náðu undirtökunum strax í upphafi leiksins og leiddu 21-17 í hálfleik. Í seinni hálfleik var sigurinn aldrei í hættu og unnu Róbert og félagar að lokum tíu marka sigur.

Mikkel Hansen fór á kostum í liði PSG en hann skoraði tíu mörk úr aðeins ellefu skotum, stórkostleg frammistaða hjá danska landsliðsmanninum.

Í Kiel unnu lærisveinar Alfreðs Gíslasonar nauman sigur á Flensburg í Meistaradeildinni. Spilamennska beggja liða var sveiflukennd en Kiel leiddi með einu marki í hálfleik í stöðunni 14-13.

Jafnræði var með liðunum framan af í seinni hálfleik og var staðan 21-21 þegar tíu mínútur til leiksloka en það virtist vekja leikmenn Kiel til lífsins. Tókst þeim að ná fjögurra marka forskoti og náðu þeir að halda forskotinu það sem eftir lifði leiks.

Munaði um að Nikolas Katsigiannis átti stórleik í seinni hálfleik í marki Kiel en markvörður Flensburg hafði átt stórleik í fyrri hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×