Dagur Kár skoraði 15 stig á 28 mínútum í leiknum en hann skoraði meðal annars þrjár þriggja stiga körfur.
Þetta var nýtt persónulegt met hjá Degi en hann skoraði 12 stig í fyrsta leiknum sínum með St. Francis frá Brooklyn.
Dagur var næststigahæstur hjá St. Francis liðinu en hann skoraði 8 af 15 stigum og 2 af 3 þristum sínum í seinni hálfleiknum sem St. Francis vann með átta stigum, 40-32, eftir að hafa verið undir í hálfleik.
Dagur er ekki eini íslenski leikmaðurinn í liðinu því Gunnar Ólafsson er á sínu öðru ári í skólanum. Gunnar var með 6 stig á 29 mínútum en hann er byrjunarliðsmaður hjá liðinu.
Dagur Kár hefur nú spilað sjö leiki á sínu fyrsta tímabili í bandaríska háskólaboltanum og er með 8,3 stig, 2,4 fráköst og 1,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Gunnar er með 3,9 stig og 2,0 fráköst að meðaltali á sjö leikjum sínum á tímabilinu.
Dagur Kár Jónsson kemur úr Stjörnunni og hefur verið í stóru hlutverki hjá meistaraflokki félagsins undanfarin ár. Hann var sem dæmi með 17,6 stig og 3,6 stoðsendingar að meðaltali í Domino´s deildinni á síðasta tímabili.