Skuldafenið sem stofnfjáreigendur Sparisjóðs Húnaþings og Stranda sátu í eftir bankahrunið ógnaði hreinlega byggð í heilu héraði, svo háar voru tölurnar, eins og nefnt var í fréttum Stöðvar 2 fyrir fimm árum. Algengt var að einstök heimili skulduðu 15-20 milljónir króna vegna stofnfjárkaupa og dæmi voru um fjölskyldur sem skulduðu á annað hundrað milljóna króna.
Síðar var upplýst að nokkrir starfsmenn sparisjóðsins skulduðu yfir eitthundrað milljónir króna og sumir í kringum tvöhundruð milljónir króna.

„Á þeim forsendum að það hafi verið ólöglega að þessu staðið af hálfu sparisjóðsins hér og sparisjóðsins í Keflavík. Það skipti sköpum fyrir samfélagið að létta aðeins á því,“ sagði Reimar.
Í raun var samfélagið á starfssvæði sparisjóðs Húnaþings og Stranda leyst úr fjötrum með skuldaniðurfellingunni. Reimar kaupfélagsstjóri segir stemmninguna hafa breyst þegar það gerðist.
„Menn þorðu lítið að hreyfa sig og gátu kannski lítið hreyft sig líka, allavega þeir sem voru með á bakinu stórar fjárhæðir,“ segir Reimar.
„Já, ég fann mun. Fólk gat farið að framkvæma út til sveita og annarsstaðar, þar sem menn voru kannski að halda aftur af sér á þessum tíma, á þessum árum þegar þetta lá yfir.“