Innlent

Tveir virtir óperusöngvarar fórust í slysinu

jón hákon halldórsson skrifar
Bjarni Thor söng með Bryjak fyrir tveimur árum.
Bjarni Thor söng með Bryjak fyrir tveimur árum.
„Samfélag óperusöngvara missti tvo frábæra listamenn og það ríkir mikill söknuður,“ segir Bjarni Thor Kristinsson óperusöngvari.

Þýska söngkonan Maria Radner og bassabarítóninn Oleg Bryjak frá Kasakstan fórust í flugslysinu. Bjarni Thor Kristinsson óperusöngvari segir að Bryjak hafi unnið með nokkrum íslenskum söngvurum. Hann var sjálfur í hópi þeirra.

„Það er ákveðinn söngvarahópur sem syngur mikið Wagner og við sungum saman i Rínargullinu, sem er líka hluti af hring Wagners, fyrir tveimur árum í Barcelona,“ segir Bjarni Thor. „Ég veit til þess að margir íslenskir söngvarar hafa sungið með honum, þetta er mjög virtur kollegi í þessum bransa,“ segir hann. Bjarni segir að Maria Radner hafi verið ung og upprennandi stjarna. Hann þekkti hana hins vegar ekki. „Netheimar hjá okkur söngvurum eru dálítið erfiðir þessa dagana. Það ríkir mikill söknuður og sorg. Kollegarnir syrgja tvo frábæra listamenn,“ segir Bjarni.

Þegar slysið varð var nýbúið að klára uppfærslu í óperunni í Liceu í Barcelona og listamennirnir voru að fara til síns heima. „Og það voru margir sem ég þekkti til sem voru að fljúga heim þennan sama dag og menn voru mikið á netinu í gær að leita að félögum sínum, hvort þeir væru ekki örugglega lentir einhvers staðar annars staðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×