Meðal nýjunga í Windows 10 er að Start-hnappurinn kemur aftur, nýr vafri í stað Internet Explorer, Hello öryggiskerfi og hraðvirkara stýrikerfi. Þá getur Windows 10 keyrt smáforrit fyrir Android og iOS. Aðeins mun takmarkað magn tölva fá uppfærsluna í júlí en flestir geta uppfært í ágúst.
„Það tekur Microsoft einhvern tíma að senda öllum uppfærslu enda eru þeir að uppfæra um 500 milljón tölvur,” segir í bloggi Björns G. Birgissonar vörustjóra PC búnaðar hjá Nýherja. Þar er að finna helstu upplýsingar um hvernig notendur geta uppfært stýrikerfið sitt og hvaða kröfur séu gerðar til uppfærslu.
Stýrikerfið hefur fengið nokkuð góða dóma og segir gagnrýnandi Guardian að nýjasta útgáfan sé líklega sú besta sem Microsoft hafi sent frá sér. Gagnrýnandinn veltir þó fyrir sér hvort tilefni sé til að uppfæra kerfið strax eða bíða aðeins og sjá til í ljósi slæmrar reynslu af Windows 8 þar sem margir söknuðu meðal annars Start-hnappsins.