Skoðun

Starfsnám í vanda

Guðmundur Hreinsson skrifar
Það er mikið fjallað um starfsnám þessa dagana og þá sérstaklega þann vanda sem greinarnar eiga við að etja vegna fækkunar nemenda í flestum greinum starfsnáms. Það er ljóst að vandinn sem skapast vegna þess að fáir nemendur kjósa að fara í starfsnám er víðtækur og margar ástæður fyrir því af hverju staðan er eins og hún er. Til þess að við getum komist út úr þessum vanda þá verðum við að greina hann með víðtækum og skipulögðum hætti og vera svo óhrædd við að koma með róttækar hugmyndir til úrbóta.

Það er ljóst að grunnskólar eru mjög bóknámsmiðaðir og löngu tímabært að hugarfarsbreyting verði hvað varðar námsráðgjöf grunnskólanema. Það eru nefnilega ekki allir sem átta sig á því að flestallir verknámsskólar bjóða einnig upp á mjög fjölbreyttar og góðar stúdentsleiðir með starfsnámi sem er mjög góður undirbúningur fyrir háskólanám og þá sérstaklega góður undirbúningur fyrir tæknigreinar á háskólastigi þar sem þörfin er kannski mest.

Einnig verður að breyta fyrirkomulagi vinnustaðanáms í starfsnámi því staðan er þannig að skólarnir geta ekki lofað nemendum sínum útskrift með sveinsprófi þar sem umsýsla vinnustaðanáms hefur ekki alfarið verið á forræði skólanna hingað til. Það gengur ekki að starfsnámsskólar sem bjóða upp á nám í löggiltum iðngreinum geti ekki lofað nemendum sínum endanlegri útskrift eða rétti til þess að taka sveinspróf. Þetta er sambærilegt við að bóknámsskólar gætu ekki lofað sínum nemendum stúdentsprófi þar sem það færi eftir atvinnuástandi einhverra óskilgreindra greina og fjölda manna með réttindi sem gætu skrifað upp á námssamning til þess að nemandi gæti tekið stúdentspróf. Nei, ég er viss um að þetta væri ekki ásættanlegt! En raunveruleikinn er einmitt sá að í mörgum starfsgreinum geta skólarnir ekki lofað nemendum sínum að útskrifast úr námi sínu vegna þess að þeir hafa ekki fulla umsýslu með náminu.

Ómarkvisst vinnustaðanám hefur hingað til orsakað mjög mikið brottfall í starfsnámi sem er óásættanlegt. Það verður að flytja umsýslu vinnustaðanáms alfarið yfir til skólanna. Eins og staðan er núna þá útvega nemendur sér sjálfir vinnustað og meistara til verkþjálfunar og þar sem fyrirtæki hafa sérhæft sig æ meira þá er ljóst að margir nemendur vinna eingöngu við mjög fáa verkþætti. Með því að stýra vinnustaðanáminu markvisst með eftirfylgni þá þyrftu nemendur ekki að vera á einum verkstað með einn meistara heldur gætu þeir verið á mörgum vinnustöðum eftir þörfum þeirra í náminu hverju sinni. Með þessum hætti væri hugsanlega hægt að stytta starfsnám með því að gera vinnustaðanámið mun markvissara. Fyrirmynd að þessu verklagi er til staðar á flestum Norðurlöndunum og við þurfum því ekki að finna upp hjólið.

Upp úr hjólförunum

Ábyrgð á vinnustaðanámi er þríþætt, ábyrgðin er skóla, atvinnulífs og síðast en ekki síst ríkisins og verða allir þessir aðilar að axla ábyrgð á þessu sviði sem felst í að bjóða upp á heilsteypt verknám með öllu sem því tilheyrir. Hvað varðar vinnustaðanámið þá gæti verið hugmynd að taka upp gegnumstreymissjóð þar sem fyrirtæki í iðnaði greiddu öll sérstakt menntagjald í sjóð. Ríkið kæmi svo með mótframlag í þennan sjóð sem væri notaður til þess að fylgja eftir vinnustaðanámi nemenda og skipuleggja það með markvissum hætti.

Þessi sjóður hefði það hlutverk fyrst og fremst að greiða þeim fyrirtækjum sem tækju að sér nemendur í vinnustaðanám. Fyrirtækin fengju þá til baka það sem þau legðu í sjóðinn og meira til þar sem ljóst er að sum fyrirtæki tækju nemendur ekki í vinnustaðanám en öxluðu samt ábyrgð með því að greiða í þennan sjóð. Öll þessi umsýsla verður svo að vera á forræði skólanna sjálfra til þess að þeir hafi þá yfirsýn sem nauðsynleg er og til þess að nemendur ljúki námi á tilsettum tíma.

Skilgreina þarf líka vinnu nemandans í annars vegar vinnustaðanám og hins vegar starfsþjálfun og á skilgreining vinnustaðanáms að vera nám á vegum skóla og það skipulagt og því fylgt eftir með markvissum hætti. Starfsþjálfun er hins vegar þjálfun nemandans í atvinnulífinu og má alveg sjá fyrir sér að starfsþjálfun eigi sér stað að loknu sveinsprófi. Þetta gæti gert það að verkum að nemendur tækju starfsþjálfun eftir að allri skólagöngu, vinnustaðanámi og sveinsprófi væri lokið. Eftir einhvern skilgreindan tíma í starfsþjálfun á vinnumarkaði fengi nemandinn svo afhent sveinsbréf. Hér hefur verið stiklað á stóru hvað varðar vanda og hugsanlegar lausnir og vonandi vakna einhverjir til umhugsunar í þessum efnum en starfsnám verður að komast upp úr hjólförunum og lausnin er einmitt oft fólgin í greiningu vandans, umræðu og skoðanaskiptum.




Skoðun

Sjá meira


×