Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er í afar sterkri stöðu eftir að hafa spilað vel á lokadegi úrtökumótaraðarinnar fyrir Evrópumótið í golfi.
Ólafía Þórunn spilaði á fjórum höggum undir pari í dag og var í 24.-26. sæti þegar hún kom í hús.
Hún sýndi magnaða spilamennsku í dag og kom í hús á 69 höggum. Hún fékk fjóra fugla og einn skolla en fjórði fuglinn kom á síðustu holunni, sem gæti hafa endanlega tryggt henni sæti á Evrópumótaröðinni.
Efstu 30 kylfingarnir vinna sér fullan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári en hinir sem komust í gegnum niðurskurðinn í gær fá skertan þátttökurétt.
Nokkrir kylfingar hafa enn ekki lokið keppni og þarf því Ólafía Þórunn að bíða eitthvað enn þar til að lokaniðurstaðan á mótinu verður staðfest.
Valdís Þór Jónsdóttir var einnig meðal þátttakenda á mótinu en hún hafnaði í 93. sæti og komst ekki í gegnum niðurskurðinn í gær.
Ólöf María Jónsdóttir varð fyrsta íslenska konan til að keppa á Evrópumótaröðinni árið 2005 og nær Ólafía Þórunn að fylgja í fótspor hennar.
