Viðskipti innlent

Halldór Bjarkar segist ekki hafa selt hlutabréf í Exista skömmu fyrir hrun

ingvar haraldsson skrifar
Halldór Bjarkar Lúðvígsson neitar því að hafa haft stöðu innherja skömmu fyrir fall bankanna.
Halldór Bjarkar Lúðvígsson neitar því að hafa haft stöðu innherja skömmu fyrir fall bankanna. vísir/gva
Halldór Bjarkar Lúðvíksson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion banka, segist aldrei hafa selt hlutabréf í Exista líkt og Hreiðar Már Sigurðsson sakaði Halldór Bjarkar um við aðalmeðferð CLN fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Halldór hefur sent á fjölmiðla.

Hreiðar Már sagði Halldór hafa selt hlutabréfin í Exista sem og í Kaupþingi föstudaginn 3. október 2008, nokkrum dögum fyrir setningu neyðarlaganna og fall Kaupþings. Hreiðar fullyrti að Halldór hefði haft stöðu innherja þegar salan átti sér stað en Halldór var á þeim tíma viðskiptastjóri hjá Kaupþingi og hafði málefni Exista á sinni könnu.

Segist hafa selt í Kaupþingi vegna þjóðnýtingar Glitnis

Halldór mótmælir fullyrðingum Hreiðars um að hann hefði verið innherji. „Hvað varðar sölu mína á bréfum í Kaupþingi nokkrum dögum eftir þjóðnýtingu Glitnis, þá byggði sú sala einungis á þeirri forsendu að við þjóðnýtingu Glitnis væri um gjörbreytt landslag að ræða á íslenskum fjármálamarkaði. Ákvörðun um þá sölu byggði ekki á neinum innherjaupplýsingum, enda var ég almennur starfsmaður í Kaupþingi með engan aðgang að innherjaupplýsingum,“ segir Halldór í yfirlýsingunni.

Hreiðar Már Sigurðsson hefur sakað Halldór Bjarkar um að breyta vitnisburði sínum til að komast hjá ákæru.
Halldór segir að eftir að Hreiðar Már sendi bréf til Sérstaks saksóknara og fleiri aðila þar sem vakin var athygli á sölu Halldórs á hlutabréfunum hafi Fjármálaeftirlitið sent honum fyrirspurn um málið. „Eftir að ég hafði svarað þeirri fyrirspurn taldi FME mig ekki hafa búið yfir innherjaupplýsingum og taldi ekki tilefni til frekari athugunar. Ég lít svo á að með þeirri ákvörðun hafi FME staðfest að umrædd sala hafi verið eðlileg og hafi þar með hreinsað mig af þessum ásökunum.“

Neitar því að hafa gert samning við saksóknara

Þá þvertekur Halldór Bjarkar fyrir að hann hafi gert nokkurn samning við embætti Sérstaks saksóknara um að fallið yrði frá því að ákæra hann gegn því að hann beri vitni í dómsmálum líkt og Hreiðar Már og verjandi hans hafa haldið fram. „Engir samningar hafa verið gerðir milli mín og embættis sérstaks saksóknara um að fallið verði frá málsókn á hendur mér gegn því að ég beri vitni. Á öllum stigum málsins hef ég einvörðungu, eins og mér ber skylda til, svarað spurningum embættisins eftir bestu getu.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×