Skoðun

Páll Winkel og skjólstæðingar hans

Ingibjörg Kristjánsdóttir skrifar
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, kemur reglulega fram í fjölmiðlum og ræðir þar ýmislegt er viðkemur fangelsismálum, frelsissviptingu og betrun. Það vekur hins vegar furðu mína að samhliða annars málefnalegri umræðu, hefur Páll ítrekað veist ómaklega að ákveðnum skjólstæðingum sínum í fangelsinu á Kvía­bryggju. Hann brýtur á þeim sem ekki geta varið sig og hefur orðið uppvís að því að fara með rangt mál. Einn þeirra sem Páll hefur brotið á er eiginmaður minn, Ólafur Ólafsson, sem afplánar þar dóm.

Páll brýtur reglur

Nýverið lýsti Páll Winkel yfir hneykslan sinni á því að ákveðnir fangar hafi farið fram á að stunda nám í reiðmennsku. Um er að ræða fjarnám skipulagt af Endurmenntunardeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Verklegi hluti námsins átti að fara fram á næsta bæ við Kvíabryggju.

Páll staðfestir í samtali við blaðamann á visir.is þann 10. nóvember að námið hafi verið „stoppað af, á síðustu stundu“. Í grein um málið eru birt tölvusamskipti Páls við rektor Landbúnaðarháskólans frá 28. október. Þar lætur hann sem hann hafi ekki haft nokkra aðkomu að málinu fyrr en skömmu áður. Hann reynir að gera þátt Landbúnaðarháskólans á einhvern hátt tortryggilegan og tekur fram að hann muni að öllum líkindum birta samskiptin opinberlega. Það má glöggt sjá að pósturinn er skrifaður með það fyrir augum er hann skrifar: „(Ég) áskil (mér) rétt til að birta spurningar þessar sem og svör enda ekkert í rekstri Fangelsismálastofnunar sem ekki þoli umfjöllun ef frá eru taldar persónugreinanlegar upplýsingar.“

Páll bætir um betur daginn eftir og mætir í viðtal á RÚV, þar sem hann ræðir mjög frjálslega og allt að því háðslega um þetta sama mál og þessa sömu menn. Þar slær hann sjálfan sig til riddara fyrir að hafa stoppað námið og mærir „fjórða valdið“ sem hetjur dagsins fyrir að hafa vakið athygli hans á málinu. Páll nefnir ekki nöfn skjólstæðinga sinna, en enginn velkist í vafa um hverja átt er við. Þegar dagskrárgerðarmaðurinn spyr: „Það liggur í loftinu að þú sért að tala um Kvíabryggju og það fólk sem í daglegu tali hefur verið nefnt útrásarvíkingar.“ þá svarar Páll: „?Það er mjög lítill hópur fanga sem hefur aðgengi að mörgum milljónum?…“

Ekki veit ég hvort þetta eru strangt til tekið persónugreinanlegar upplýsingar en Páll veit að hlustendur átta sig á því um hverja ræðir. Hann veit að með frétt Vísis frá deginum áður voru birtar myndir af Ólafi og samföngum hans í sama máli.

Páll Winkel hefur því brotið á skjólstæðingum sínum sem forstjóri Fangelsismálastofnunar, með því að tjá sig opinberlega um einkamál þeirra.

Páll fer með ósannindi

En Páll fer einnig með rangt mál þegar hann heldur því fram að hann hafi stoppað námið á síðustu stundu. Sannleikurinn er sá að beiðnin um reiðnámið var í skoðun hjá Fangelsismálastofnun frá því snemma í sumar. Sömu stofnun og Páll stýrir. Fangelsismálastofnun gaf leyfi fyrir náminu þann 1. september og leyfið var aldrei dregið til baka, eins og Páll vill láta í veðri vaka, heldur þvert á móti staðfest 2. nóvember með ákveðnum takmörkunum á hluta námsins sem voru þess eðlis að fangarnir ákváðu sjálfir að hætta við. Tölvusamskipti sem staðfesta þessa atburðarás liggja fyrir. Það er því rangt sem Páll Winkel heldur fram opinberlega að hann hafi stöðvað námið.

Það er óskiljanlegt að Páll Winkel sem forstjóri Fangelsismálastofnunar fari með ósannindi um skjólstæðinga sína. Það er jafn ótrúlegt að forstjórinn ræði málefni einstakra fanga, eða hóps fanga, opinberlega með þeim hætti að enginn velkist í vafa um hverja er verið að ræða. Páll veit sem er að föngum er bannað samkvæmt lögum að tjá sig í fjölmiðlum nema með sérstöku leyfi hans sjálfs. Hann áskilur sér rétt til að lesa yfir og ritskoða allt sem frá fangelsinu fer. Fangar hafa ekki aðgang að samfélagsmiðlum og mega ekki tjá sig í athugasemdakerfum fjölmiðla. Þeir geta því ekki svarað fyrir sig.

Hver sem tilgangur Páls með þessu upphlaupi er, þá er ljóst að í þessu máli hefur hann ekki gætt hagsmuna skjólstæðinga sinna, með þeim hætti sem embættismaður í hans stöðu á skilyrðislaust að gera. Framganga Páls er sérlega ósmekkleg í ljósi þess að hann veit manna best að frelsissviptingin ein og sér er mönnum nógu erfið þó mannréttindi þeirra séu ekki brotin samhliða. Þetta hefur hann gert á kostnað skjólstæðinga sinna, fanga sem eiga sér fáa málsvara í þjóðfélagi haturs og hefnigirni, fanga sem Páll veit að er óheimilt að tjá sig í fjölmiðlum. Fangarnir eru því varnarlausir gegn aðför forstjóra Fangelsismálastofnunar.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×