Skoðun

Frelsi. Hvað svo?

Elísabet Kristjánsdóttir skrifar

Nokkuð hefur verið fjallað um endurkomutíðni í íslensk fangelsi og að hlutfall þeirra sem lenda í fangelsi að nýju hér á landi sé sennilega nokkuð hærra en gerist hjá nágrannaþjóð eins og Noregi. Í nýlegri rannsókn Hildar Hlöðversdóttur um félagslegan bakgrunn fanga og aðlögun þeirra að samfélaginu að lokinni afplánun kom fram að 53,7% aðspurðra voru í fangelsi oftar en einu sinni og yfir 35% voru þar í þriðja sinn eða oftar. Sennilega er endurkomutíðni allra lægst í Noregi en aðeins 16% þeirra sem ljúka afplánun í opna fangelsinu á Bastøy snúa í fangelsi að nýju en um 20% þegar litið er á landið í heild.

Aðstoð til að snúa við blaðinu

Margt bendir til þess að fyrstu mánuðirnir eftir að afplánun lýkur skipti höfuðmáli um hvort einstaklingurinn nær að fóta sig í samfélagi frjálsra manna og að eftirfylgni, eftir að betrunarvist lýkur, sé nauðsynleg eigi meðferð sem hefur farið fram í fangelsi að hafa langtímaáhrif. Mörgum getur reynst erfitt að bera sig eftir aðstoð eða þjónustu hins opinbera eftir að hafa verið aðgreindir frá samfélaginu. Einnig hafa margir þurft að yfirgefa fyrri félagsskap til að hefja nýtt líf.

Stuðningsfélagi eftir afplánun

Fyrir tíu árum setti Rauði krossinn í Noregi á fót sjálfboðaverkefnið Stuðningsfélagi eftir afplánun (Nettverk etter soning). Markmiðið með sjálfboðaverkefninu er að rjúfa félagslega einangrun þeirra sem hafa lokið afplánun í fangelsi og eru að stíga sín fyrstu skref út í lífið aftur. Þar hefur sérstaklega verið horft til þess hóps fanga sem hefur ekki sterkt félagslegt net í kringum sig og þarf stuðning til að verða þátttakendur í samfélaginu að nýju. Í forgrunni eru þarfir og óskir þátttakenda á þeirra forsendum enda ekki meðferð heldur stuðningur sem veittur er af sjálfboðaliðum við að mynda félagsleg tengsl og taka þátt í hinu hversdagslega lífi. Þannig fæst jákvæð upplifun við að lifa hefðbundnu lífi sem og eiga jákvæða upplifun á frístundum auk þess að byggja hægt og bítandi upp nýtt félagslegt net.

Liður í að fækka endurkomum

Sjálfboðaverkefni Rauða krossins í Skandinavíu hafa tengt aðstoð í fangelsum við aðstoð að lokinni afplánun. Þannig hafa sjálfboðaliðar Rauða krossins í Danmörku aðstoðað fanga við heimanám í fangelsum en jafnframt haldið áfram stuðningnum þegar út er komið. Þá hefur Rauði krossinn í Ósló staðið fyrir verkefninu Red Bike sem lýkur með hjólakeppni vistmanna, starfsmanna og sjálfboðaliða en teygir jafnframt anga sína út fyrir fangelsið með hjólreiðaferðum að afplánun lokinni. Á þennan hátt er bæði hvatt til annars konar þjálfunar innan veggja fangelsanna en einnig lagður grunnur að heilbrigðri útivist sem stutt er við eftir afplánun með reglulegum ferðum út í náttúruna mönnuðum sjálfboðaliða sem aðstoðar. Samfélagsleg ábyrgð Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög taki höndum saman, ásamt félagasamtökum eins og Rauða krossinum, til að minnka endurkomur í fangelsin. Þörf er á ríkulegum stuðningi eftir að afplánun lýkur til þess að gera þeim sem settir hafa verið á hliðarlínuna, og þrá betra líf, kleift að verða hluti af samfélaginu. Það er samfélagslega hagkvæmt og sparar fjármuni.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×