Viðskipti innlent

Vonast eftir niðurstöðu fyrir næstu mánaðamót

Óli Kristján Ármansson skrifar
Frá undirritun SALEK-samkomulagsins í lok október.
Frá undirritun SALEK-samkomulagsins í lok október. Fréttablaðið/Pjetur
Stefna stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness á hendur SALEK-hópnum var í gær afhent forseta Félagsdóms. Í dag eða á morgun verði skorið úr um hvort á henni séu einhverjir annmarkar, segir Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélagsins, og hún í kjölfarið birt þeim sem í hlut eigi. Hann vonast eftir niðurstöðu Félagsdóms fyrir mánaðamót.

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness
Upplegg stefnunnar er að með SALEK-samkomulaginu hafi samningsfrelsi einstakra verkalýðsfélaga verið skert. Þessu hafnar Alþýðusamband Íslands, en áréttað er á vef sambandsins að ekkert í samkomulaginu hrófli við ákvæðum vinnulöggjafarinnar um samningsrétt einstakra stéttarfélaga. Markmið samkomulagsins sé að auka kaupmátt á grundvelli lágrar verðbólgu, lágra vaxta og stöðugs gengis. „Á hinum Norðurlöndunum hefur tekist að auka kaupmátt tvisvar sinnum meira á ári síðustu 15 árin en hér á landi,“ segir þar.

Vilhjálmur segir að hið eiginlega höfrungahlaup sem koma þurfi í veg fyrir á vinnumarkaði sé þegar prósentuhækkanir gangi upp allan launastiga stéttarfélaga, fremur en að allir fái sömu krónutöluhækkun á laun sín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×