Viðskipti innlent

Hafa hagnast um 244 milljónir á dag

Ingvar Haraldsson skrifar
Hagnaður Arion banka var mestur á fyrstu níu mánuðum ársins eða 93,4 milljónir króna á dag að jafnaði.
Hagnaður Arion banka var mestur á fyrstu níu mánuðum ársins eða 93,4 milljónir króna á dag að jafnaði. vísir/pjetur
Viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, högnuðust samanlagt um 66,5 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins, eða sem samsvarar 244 milljónum króna á dag.

Mestur var hagnaður Arion banka eða 25,4 milljarðar króna, eða um 93 milljónir króna á dag að jafnaði.

Hagnaður Arion banka líkt og hinna bankanna litast að stórum hluta af svokölluðum einskiptisliðum. Í tilfelli Arion banka var um helmingur af hagnaði bankans kominn til vegna sölu eigna sem félagið eignaðist í skuldauppgjöri í kjölfar hrunsins. Það sem af er ári hefur bankinn selt stóra eignarhluti í Reitum, drykkjarframleiðandanum Refresco Gerber og Símanum.

Landsbankinn hagnaðist um 24,4 milljarða króna á tímabilinu eða um 89,3 milljónir króna á dag. 6,8 milljarðar af hagnaðinum skýrðust af bakfærslu á varúðarfærslu vegna gengis­lána til fyrirtækja.

Minnstur var hagnaður Íslandsbanka sem nam 16,7 milljörðum króna það sem af er ári eða 61,1 milljón króna á dag. Þar var hlutfall einskiptisliða af hagnaði einnig lægst.

Búist er við að hagnaður vegna einskiptisliða muni dragast saman á næstunni. Bankarnir hafi selt stærstan hluta þeirra eigna sem féllu þeim í skaut í hruninu og búið sé að bókfæra megnið af virðishækkun lána. Því muni bankarnir þurfa að treysta á grunnrekstur sinn. Uppgefin arðsemi af grunnrekstri allra bankanna eykst milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×