Viðskipti innlent

Matvara og flugmiðar munu hækka í desember

Sæunn Gísladóttir skrifar
Greining Íslandsbanka spáir því að fatnaður, matvara og flugfargjöld.
Greining Íslandsbanka spáir því að fatnaður, matvara og flugfargjöld.
Í jólamánuðinum munu matvara og flugmiðar hækka í verði að mati greiningar Íslandsbanka. Báðir þessir liðir hafa haft árstíðabundna tilhneigingu til hækkunar í þessum mánuði. Greiningin gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,2 prósent í desember.

Greiningin spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) muni lækka um 0,2% í nóvember frá októbermánuði. Þrátt fyrir lækkunina mun verðbólga aukast úr 1,8% í 2,1% gangi spáin eftir, enda lækkaði VNV um 0,5% í nóvember 2014. Verðbólga verður þó miðað við spána áfram undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands.

Í greiningunni segir að verðbólguhorfur til skemmri tíma hafi batnað nokkuð frá síðustu spá, en til meðallangs tíma séu horfurnar lítið breyttar. Talið er að verðbólgan verði nokkuð undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í árslok. Horfur eru á að verðbólga aukist þegar líður á næsta ár. Verður hún samkvæmt spánni rétt við verðbólgumarkmið að jafnaði á næsta ári, en nærri efri mörkum markmiðsins árið 2017.

Flugfargjöld og fatnaður lækka í nóvember

Spáin um 0,2% lækkun VNV í nóvember felur í sér umtalsverða breytingu frá bráðabirgðaspá (0,1% hækkun). Breytingin felst að stærstum hluta í fjórum liðum: fötum og skóm, ferða- og flutningalið, mat og drykk, og húsnæði. Fyrrnefndu þrír liðirnir eru einnig helstu áhrifaþættir í þeirri lækkun sem spáð er.

Flugfargjöld eru þyngsti einstaki áhrifaþátturinn til lækkunar í spánni að þessu sinni. Þessi liður muni vega til 0,14% lækkunar VNV í nóvember. Árstíðaráhrif eru sterk í þessum lið, og auk þess gætu sterkari króna, lægra eldsneytisverð og aukin samkeppni haft áhrif. Í spánni kemur einnig fram að fata- og skóliður VNV muni lækka um ríflega 2% í nóvember, sem hefur áhrif til 0,10% lækkunar vísitölunnar. Húsnæðisliður VNV hefur hins vegar einna mest áhrif til hækkunar hennar í nóvemberspánni. Alls eru áhrifin til 0,08% hækkunar. Þar af er gert ráð fyrir 0,4% hækkun á reiknaðri húsaleigu (0,06% í VNV) og svipaðri hækkun á greiddri húsaleigu (0,02% í VNV). Aðrir liðir vega minna og eru samanlögð áhrif þeirra á VNV óveruleg í spánni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×