Skoðun

Framtíðarsamfélag

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Um þessar mundir flytja fleiri Íslendingar burt en til landsins. Auðvitað hefur það verið meðvitað markmið okkar í alþjóðlegu samstarfi að Íslendingar geti sótt sér menntun, þekkingu og reynslu um allan heim. Tölur um búferlaflutninga vekja hins vegar ýmsar spurningar um það hvort okkur er að takast að skapa samfélag hér á landi sem fólk vill gera að heimili sínu og auðga með reynslu sinni, þekkingu og menntun.

Líklega var óumflýjanlegt að ungt fólk leitaði út fyrir landsteinana fyrst eftir hrun. Sú þróun snerist hins vegar við enda ríkisstjórn Vinstri-grænna og Samfylkingarinnar meðvituð um að hún væri óviðunandi til lengri tíma. Þess vegna var m.a. ráðist í fjárfestingaáætlun til að fjölga fjölbreyttum atvinnutækifærum. Stefnan var sett á að lengja fæðingarorlof, að hluti námslána myndi breytast í styrk og fleira. Því miður féll núverandi ríkisstjórn frá þessum markmiðum.

Núverandi ríkisstjórn getur hins vegar ekki kosið að líta framhjá þeirri þróun sem við sjáum núna. Á landsfundi Vinstri-grænna á dögunum var samþykkt sérstök stefna í málefnum ungs fólks. Hún felur m.a. í sér að boðið verði upp á húsnæði á viðráðanlegu verði, menntun verði aðgengileg öllum, námslánakerfi verði þannig að verulegur og vaxandi hluti lánanna verði styrkur, fæðingarorlof verði að minnsta kosti tólf mánuðir og leikskólinn taki við að því loknu án gjaldtöku. Sálfræðiþjónusta verði aðgengileg án endurgjalds á öllum skólastigum og lýðræðisþátttaka verði höfð að leiðarljósi við alla samfélagsþróun. Almenningssamgöngur verði raunverulegur valkostur fyrir alla sem ekki vilja eyða formúum í að eiga bíl. Og síðast en ekki síst verði öflugt netsamband tryggt um allt land.

Ísland hefur alla burði til að verða eftirsóknarverður valkostur fyrir ungt fólk. Við eigum að kappkosta að byggja hér öflugt samfélag, þekkingarsamfélag, jafnaðarsamfélag og skapandi samfélag og snúa þannig vörn í sókn. Þar eigum við í samkeppni við umheiminn en ekki hvert annað og því verðum við að ná saman um markmið sem skila árangri. Við Vinstri-græn erum tilbúin að leggja okkar af mörkum í þá vinnu.




Skoðun

Sjá meira


×