Viðskipti innlent

Ekkert betra en að dýfa sér í sjóinn eftir góða fjallgöngu

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ásta segist alltaf hafa unnið mikið og oft komist ekki mikið annað að en fjölskyldan og vinnan.
Ásta segist alltaf hafa unnið mikið og oft komist ekki mikið annað að en fjölskyldan og vinnan. Vísir/GVA
Ásta Bjarnadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landspítala. Mannauðssvið er nýtt svið á Landspítala en á síðustu misserum hefur verið lögð aukin áhersla á að þróa Landspítala sem góðan og eftirsóknarverðan vinnustað. Ásta hefur störf í desember.

Aðspurð segir Ásta nýja starfið leggjast vel í sig. „Mér finnst þetta verkefni gríðarlega spennandi. Landspítali er mikilvægasta heilbrigðisstofnunin á landinu, staðurinn þar sem við fæðumst flest og deyjum mörg og allt þar á milli, starfsemin er í raun þjónusta við lífið sjálft, og það er hugsjón sem höfðar mikið til mín,“ segir Ásta. „Undanfarið hefur verið unnið gott starf í mannauðsmálum á spítalanum, þótt erfiðleikar hafi líka verið talsverðir, og ég hlakka til að taka þátt í uppbyggingu til framtíðar.“

Ásta lauk doktorsprófi í vinnusálfræði frá Háskólanum í Minn­esota 1997 og hefur síðan starfað sem mannauðsstjóri, háskólakennari og ráðgjafi á sviði mannauðsstjórnunar, meðal annars hjá Háskólanum í Reykjavík, Capacent og Íslenskri erfðagreiningu. Ásta starfaði hjá Háskólanum í Reykjavík á árunum 2001 til 2010, síðustu árin sem framkvæmdastjóri mannauðs og gæðasviðs skólans. Frá árinu 2011 hefur hún starfað sem ráðgjafi hjá Capacent við verkefni á sviði stjórnunar, mannauðsstjórnunar og vinnusálfræði. Hún hefur frá árinu 2014 komið að stjórnendaþjálfun á vegum Landspítala með áherslu á teymisvinnu stjórnenda og stuðning við úrvinnslu starfsumhverfiskönnunar, auk þess sem hún hefur aðstoðað við stjórnendaráðningar innan spítalans.

Ásta er gift Árna Sigurjónssyni, skrifstofustjóra hjá embætti forseta Íslands, og eiga þau þrjú börn á aldrinum 11 til 22ja ára en fyrir átti Árni eina dóttur. Utan vinnunnar stundar Ásta hreyfingu og hefur mikinn áhuga á útivist. „Ég hef ákaflega gaman af fjallgöngum og útivist, helst í íslenskri náttúru. Ég er í gönguhóp sem gengur alltaf eina viku á sumri saman í óbyggðum og svo fer ég oft út í kraftgöngur með vinkonum mínum yfir veturinn,“ segir Ásta. Aðspurð segir hún Esjuna vera í sérstöku uppáhaldi, en einnig séu ótrúlega mörg yndisleg svæði bæði í nágrenni við Reykjavík og úti um landið. „Og það er ekkert betra en að dýfa sér í sjóinn í lokin á góðum fjallgöngudegi,“ segir Ásta.

Ásta syndir einnig á morgnana í Vesturbæjarlauginni. „Það er mjög mikilvægt þegar maður er mikið að vinna með höfðinu og iðulega lokaður inni á skrifstofum og fundaherbergjum að fá ferskt loft,“ segir Ásta.

Ásta segist alltaf hafa unnið mikið, og oft komist ekki mikið annað að en fjölskyldan og vinnan, en þó kom nýlega inn nýr þáttur þegar þau hjónin fengu sér sumarbústað. „Ætli maður sé þá ekki opinberlega orðinn miðaldra,“ segir Ásta.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×