Viðskipti innlent

Hætti að drekka og fór að safna bjór

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Margrét og safnið.
Margrét og safnið.
Eitt stærsta bjórsafn landsins í einkaeigu er nú til sýnis í bjórsetrinu Ægisgarði á Granda. Þar er að finna 383 flöskur sem eigandinn, Margrét Þorsteinsdóttir, hefur sankað að sér undanfarin þrjú ár. „Ég ákvað að fara að safna bjór þegar ég hætti að drekka, eins heimskulegt og það er,“ segir Margrét og skellihlær.

Margrét og eiginmaður hennar söfnuðu flöskunum saman. Flöskurnar voru margar hverjar keyptar hér á landi en einnig færðu vinir þeirra og ættingjar þeim flöskur þegar þeir komu að utan. Bjórflöskurnar voru geymdar í hillum inni í stofu en Margrét segir það alls ekki hafa freistað sín að smakka innihaldið. Hillurnar voru teknar niður þegar ákvörðun var tekin um að hafa flöskurnar til sýnis í Ægisgarði og eru þau hjón sammála um að nú sé heldur tómlegt um að litast í stofunni.

Starfsmenn Ægisgarðs leigðu fyrir skömmu sendiferðabíl og keyrðu til Margrétar, sem býr ásamt eiginmanni sínum á Blönduósi. Þeir komu bjórnum fyrir í Coca-Cola kössum.
Þau ætla þó ekki að hætta að safna. „Ég sagði við Ægisgarð að ég myndi halda áfram að safna bjórflöskum og henda í safnið hjá þeim. Ég fer með þann bjór beint suður,“ segir Margrét, sem býr á Blönduósi.

Bjórsafnið, sem inniheldur flesta íslenska bjóra sem bruggaðir hafa verið á flösku undanfarin ár og fjölmarga erlenda bjóra, mun án efa fá mikla athygli bæði Íslendinga og erlenda ferðamenn sem sækja bjórfræðslu í Ægisgarð úti á Granda. Íslenski bjórmarkaðurinn er í örri þróun og hefur bjórmenning og áhugi á bruggunaraðferðum farið mjög vaxandi undanfarin ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×