Viðskipti innlent

Greiðsluþrot blasir við: Framtíð Reykjanesbæjar ræðst á næstu sex vikum

ingvar haraldsson skrifar
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstóri Reykjanesbæjar þorir ekki að segja til um hvort viðræður við kröfuhafa muni ganga sem skyldi.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstóri Reykjanesbæjar þorir ekki að segja til um hvort viðræður við kröfuhafa muni ganga sem skyldi. vísir
Takist samningar ekki við lánardrottna Reykjanesbæjar blasir greiðsluþrot við á næsta ári. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar á von á því að niðurstaða fáist í viðræðum við kröfuhafa á næstu sex vikum eða áður en önnur umræða um fjárhagsáætlun bæjarins fer fram þann 15. desember.

Í fjárhagsáætluninni, sem er fyrir árin 2016-2019, kemur fram að handbært fé bæjarsjóðs verði uppurið á næsta ári. Samkvæmt áætluninn verður handbært fé bæjarsjóðs neikvætt um 231 milljón króna í árslok 2016 og handbært fé A og B hluta verði orðið neikvætt um 2,6 milljarða króna.

Kjartan þorir ekki að segja til um hvort niðurstaðan í viðræðunum verði jákvæð eða neikvæð fyrir bæinn. „Það þokast í átt að niðurstöðu en ég þori ekkert að segja til um að það endi í samkomulagi,“ segir Kjartan.

Reykjaneshöfn á einnig í viðræðum við kröfuhafa sína. Höfnin hefur þegar fengið greiðslustöðvun samþykkta á skuldum sem voru á gjalddaga þann 15. október fram til 30. nóvember.

Fjárhagsnefnd skipuð og skorið niður

Lendi Reykjanesbær í greiðslufalli þarf innanríkisráðuneytið að skipa fjárhagsnefnd yfir sveitarfélaginu að sögn Kjartans. Þá blasi væntanlega niðurskurður við. „Það verður einhver starfsemi lögð af, dregið saman, allt sem er ekki lögbundið geri ég ráð fyrir,“ segir Kjartan. Þær ákvarðanir verði þó væntanleg á borði fjárhagsnefndarinnar.

Samanlagt nema afborganir lána A og B hluta tæpum 3,6 milljörðum á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætluninni.

Samkvæmt áætluninni er búist við því að 600 milljón króna tap verði samtals af rekstri A og B hluta Reykjanesbær en af bæjarsjóði einum verði tapreksturinn 773 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×