Viðskipti innlent

Century Aluminum tapaði 80 milljónum á dag

Ingvar Haraldsson skrifar
Norðurál er eitt dótturfélaga Century Aluminum.
Norðurál er eitt dótturfélaga Century Aluminum. vísir/ernir
Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls sem rekur álverið á Grundartanga og hefur áform um álver í Helguvík, tapaði 2,7 milljörðum króna á tímabilinu frá byrjun júlí og út september. Upphæðin samsvarar tæplega 80 milljónum króna á dag.

Félagið á í miklum rekstrarerfiðleikum vegna fallandi álverðs. Það hefur þegar tilkynnt um varanlega lokun eins af fjórum álverum sínum í Bandaríkjunum og dregið úr framleiðslu annars um 60 prósent. Þá er von á að eitt álver til viðbótar loki vestanhafs um áramótin takist ekki að semja um orku á nægjanlega hagstæðu verði. Að hluta til skýrist tapið af afskriftum vegna lokananna.

Náist ekki samningar um orku verður Century Aluminum einungis með fulla starfsemi í þremur álverum.

Hlutabréfaverð í fyrirtækinu hríðféll eftir að uppgjörið var birt í gærmorgun og hafði lækkað um tæplega tuttugu prósent síðdegis í gær. Síðasta árið hefur hlutabréfaverð í Century Aluminum lækkað um nærri 90 prósent.

Samkvæmt nýlegri úttekt greiningarsíðunnar Seeking Alpha á félaginu eru líkur á að álframleiðandinn verði gjaldþrota verði ekkert að gert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×