Viðskipti innlent

Chile lokar á innflutning laxahrogna

Svavar Hávarðsson skrifar
Stofnfiskur er annað af stærstu fyrirtækjum heims í framleiðslu lifandi laxahrogna og hefur setið eitt að markaði í Chile.
Stofnfiskur er annað af stærstu fyrirtækjum heims í framleiðslu lifandi laxahrogna og hefur setið eitt að markaði í Chile. mynd/stofnfiskur
Yfirvöld í Chile hafa fyrirskipað tímabundið innflutningsbann á íslenskum laxahrognum. Ástæðan er veirusýking sem greindist nýlega í hrognkelsum hjá Tilraunastöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík sem ætluð voru til undaneldis á seiðum sem flytja átti til Færeyja þar sem þau eru nýtt af þarlendum laxeldisfyrirtækjum til að halda niðri laxalús í sjókvíaeldi.

Bannið snertir fyrirtækið Stofnfisk beint, stærsta framleiðanda laxahrogna hér á landi, sem eitt fyrirtækja í heiminum hefur haft heimild til að selja laxahrogn til Chile. Undanfarin ár hefur heildarsala Stofnfisks á laxahrognum til Chile verið verulegur hluti af framleiðslu fyrirtækisins, og þar af leiðandi tekjum. Stofnfiskur framleiddi laxahrogn fyrir vel á annan milljarð í fyrra.

Í frétt Stofnfisks vegna málsins á heimasíðu fyrirtækisins er það skýrt tekið fram að um tímabundið innflutningsbann sé að ræða og standa vonir forsvarsmanna þess til að niðurstaða rannsókna yfirvalda í Chile liggi fyrir sem allra fyrst, eða í síðasta lagi fyrir áramót. Eins er hnykkt á því að eldi hrognkelsa í Grindavík, en Stofnfiskur er samstarfsaðili Hafró í því verkefni, kemur framleiðslu á laxahrognum í raun ekkert við og smit á milli eldisstöðva í raun illmögulegt eða útilokað. Aðeins sé um varúðarráðstöfun að ræða.

Innflutningsbannið var sett á af Sernapecska eftir flöggun frá Alþjóðadýraheilbrigðismálastofnuninni í París.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×