Viðskipti innlent

Truflanir á innflutningi nauðsynja vegna verkfalls

Samúel Karl Ólason skrifar
"Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem alvarlegar truflanir verða á innflutningi vegna verkfalls opinberra starfsmanna.“
"Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem alvarlegar truflanir verða á innflutningi vegna verkfalls opinberra starfsmanna.“ Vísir/HARI
Félag atvinnurekenda segir mat, barnamjólk og sprautunálar ekki fá tollagreiðslu vegna verkfalls SFR. Í tilkynningu frá félaginu segir að vitað sé að farmskrár frá flutningafélögum lesist oft ekki sjálfkrafa inn í rafrænt kerfi Tollstjóra. Þar sem enginn sinni slíkum uppákomum í verkfallinu fáist vörurnar því ekki tollafgreiddar.

Þá er bent á í tilkynningunni að Tollstjóri gefið út að verkfallið myndi ekki hafa áhrif á tollagreiðslu skipa og flugvéla.

„Innflytjendur heilbrigðisvara á borð við sprautunálar og sprautur, sem notaðar eru á sjúkrahúsum, hafa sótt um undanþágur til undanþágunefndar SFR, en þær hafa enn ekki fengist afgreiddar. Er Landspítalinn þó til dæmis í brýnni þörf fyrir að vörurnar fáist afhentar,“ segir í tilkynningunni.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.Vísir/Valli
Þar að auki er starfsmaður Matvælastofnunar sem skrifar upp á heilbrigðisvottorð fyrir þurrmjólk fyrir ungabörn í verkfalli og því er sú vara ekki heldur tollafgreidd.

„Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem alvarlegar truflanir verða á innflutningi vegna verkfalls opinberra starfsmanna. Því miður stefnir í skort á ýmsum nauðsynjavörum dragist verkfallið á langinn,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

„Eins og í verkfalli BHM beinum við þeim tilmælum til forstöðumanna og stjórnenda ríkisstofnana, sem ekki eru í verkfalli, að þeir sinni skyldum sínum og takmarki það tjón sem af verkfallinu leiðir. Þeir hafa heimild til að ganga í störf undirmanna samkvæmt skýrum fordæmum í íslenskum vinnurétti og geta þannig bjargað verðmætum og afstýrt fjárhagstjóni umfram það sem óumflýjanlega fylgir verkfalli.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×