Viðskipti innlent

Gáfu 2800 kíló af ís

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir er markaðsstjóri Kjöríss.
Guðrún Hafsteinsdóttir er markaðsstjóri Kjöríss. Vísir/Vilhelm
„Ísdagurinn er dæmi um markaðsherferð sem við fórum gagngert í til að byggja undir Kjörís-vörumerkið. Á þessum degi líka viljum við bjóða fólki til okkar og gefa því ís. Við gáfum 2800 kíló af ís núna í ágúst,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss.

Hún er á meðal frummælenda á morgunfundi Ímark um vægi markaðsstarfs í íslenskum fyrirtækjum á morgun. Þar verður rætt um markaðssetningu fyrirtækja. Guðrún segir að Kjörís trúi því að Ísdagurinn sé gott tilefni til að eignast nýja viðskiptavini og leggja rækt við þá sem fyrir eru í viðskiptum. „Svo viljum við líka á þessum degi sýna að við erum lifandi fyrirtæki og til í að gera næstum því allt,“ segir Guðrún. Þar vísar Guðrún til þess að Kjörís hafi boðið upp á mjög frumlegar ísgerðir á ísdeginum.

Aðrir frummælendur á fundinum verða Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri, Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, og Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár.

„Okkar sérstaða liggur í því að við erum ekki með markaðsdeild í Kjörís heldur er þetta bara ég,“ segir Guðrún. Guðrún segir þó hægt að reka markaðsstarf með góðum árangri þótt peningarnir séu ekki miklir. En það verði fróðlegt að heyra muninn á áherslum Kjöríss og svo stærri fyrirtækja sem hafa úr meira fjármagni að spila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×