Viðskipti innlent

Tekjur stærstu fyrirtækja drógust saman

Sæunn Gísladóttir skrifar
Icelandair Group er stærsta fyrirtæki landsins miðað við tekjur árið 2014 samkvæmt lista Keldunnar sem birtist í gær. Fyrirtækið velti 142 milljörðum króna árið 2014. Marel er í öðru sæti á listanum með 110 milljarða í tekjur og Icelandic Group í því þriðja með tæplega 90 milljarða.

Samtals veltu tíu stærstu fyrirtæki landsins 883,9 milljörðum króna á síðasta ári. Árið 2013 veltu þau hins vegar 962,7 milljörðum króna. Útflutningsfyrirtæki vega þyngst á topp 10 listanum. Styrking krónunnar gæti því hafa spilað inn í lægri veltu á síðasta ári.

Stærstu fyrirtæki landsins breytast lítið milli ára. Ef listi Keldunnar er borinn saman við lista Frjálsrar verslunar yfir stærstu fyrirtæki landsins miðað við veltu árið 2013 má sjá að einungis tvö fyrirtæki detta út og tvö koma inn í staðinn; Promens var selt úr landi og dettur því út, einnig dettur Samskip út af listanum. Í staðinn koma Norðurál og Hagar inn.

Samanlagður hagnaður þeirra tíu fyrirtækja sem skiluðu bestu afkomunni, samkvæmt lista Keldunnar, nam 144 milljörðum króna árið 2014. Efst á þeim lista voru viðskiptabankarnir þrír.

Landsbankinn var með mestan hagnað eða 29 milljarða króna, Arion banki fylgdi fast á eftir með 28,6 milljarða og Íslandsbanki með 22,8 milljarða. Auk þeirra eru orkufyrirtækin fyrirferðarmikil á listanum. Afkoman hefur batnað milli ára um tæplega 45 milljarða, en hún nam 99,4 milljörðum árið 2013. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×